Fótbolti

Sancho fagnaði með því að biðja um réttlæti | Samúel ekki í leikmannahóp Paderborn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sancho sést hér fagna fyrra marki sínu í dag.
Sancho sést hér fagna fyrra marki sínu í dag. Lars Baron/Getty Images

Borussia Dortmund vann öruggan 6-1 útisigur á Paderborn 07 í síðari leik dagsins í þýsku úrvalsdeildinni. Samúel Kári Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Paderborn 07 í dag.

Jadon Sancho skoraði þrennu í leiknum og fagnaði fyrsta marki sínu með því að fara úr búningnum og sýna skilaboð sem hann hafði skrifað á innanundir treyju sína. Hafði hann skrifað „Justice for George Floyd“ eða „réttlæti fyrir George Floyd.“

Fékk hann gult spjald fyrir það að fara úr treyjunni.

Dortmund tapaði fyrir Bayern Munich í síðustu umferð og þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga einhvern möguleika á að ná Bæjurum. Eftir markalausan fyrri hálfleik þá kom Thorgan Hazard gestunum yfir í upphafi síðari hálfleiks.

Það var svo á 57. mínútu leiksins sem Sancho skoraði fyrra mark sitt og reif sig úr treyjunni. Sendi hann þar með sömu skilaboð og Weston McKennie, fyrirliði Schalke 04, og Marcus Thuram, leikmaður Borussia Mönchengladbach.

Uwe Huenemeier minnkaði muninn fyrir Paderborn 07 með marki úr vítaspyrnu á 72. mínútu leiksins en Sancho tryggði Dortmund sigurinn með öðru marki sínu og þriðja marki gestanna aðeins tveimur mínútum síðar. 

Vængbakvörðurinn Achraf Hakimi skoraði fjórða mark gestanna eftir sendingu Marcel Schmelzer, sem var í hinum vængbakverðinum, þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en gestirnir voru hvergi nærri hættir. Hakimi fór sömu leið og Sancho þegar kom að fagna marki sínu.

Schmelzer bætti við marki undir lok venjulegs leiktíma og í uppbótartíma gulltryggði Sancho þrennu sína. Lokatölur því 6-1 í hreint út sagt ótrúlegum síðari hálfleik.

Dortmund er nú með 60 stig í 2. sæti, sjö stigum á eftir toppliði Bayern. Paderborn 07 er sem fyrr á botni deildarinnar með 19 stig, níu stigum frá öruggu sæti.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.