Innlent

Óttast að ströng skilyrði fyrir hlutastarfaleið fæli fyrirtæki frá

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir/vilhelm

Stjórnarfrumvarp um framlengingu hlutabótaleiðarinnar var samþykkt á Alþingi í gær með 27 atkvæðum. 22 sátu hjá. Nefndarmaður í velferðarnefnd óttast að hert skilyrði fyrir nýtingu leiðarinnar geti fælt fyrirtæki frá því að nota hana.

Fyrirtæki sem nýta leiðina þurfa að uppfylla mun hertri skilyrði en í fyrri lögum um hlutastarfaleiðina og sagði forsætisráðherra í fréttum í gær að frumvarpið kæmi á móts við athugasemdir Ríkisendurskoðunar um framkvæmd á eftirliti og nýtingu úrræðisins.

Ekki var einhugur í stjórnarflokkunum um öll þau auknu skilyrði sem fyrirtæki þurfa nú að uppfylla á Alþingi í gær. Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, taldi skilyrðin of ítarleg.

„Þessi skilyrði, þau ganga bara of langt,“ sagði Willum. „Segjum það bara eins og það er. Og, þau ganga í raun og veru gegn meginmarkmiðum frumvarpsins. Hver er raunveruleikinn? Raunveruleikinn er nefnilega sá að nú ertu sennilega þvingaður í það, horfandi framan í þessi skilyrði, að segja fólki upp. Punktur.“

Vilhjálmur Árnason, nefndarmaður í velferðarnefnd.Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur Árnason nefndarmaður í velferðarnefnd er einnig á því að skilyrðin séu of ítarleg. Vilhjálmur segir að launþegahreyfingin hafi lagt mikla áherslu á strangari skilyrði.

„Þá er aðalatriðið að það sé eftirlit með leiðinni og það séu þá einhver viðurlög við því að vera að misnota leiðina,“ segir Vilhjálmur. „En svo eru skilyrðin allt annað atriði. Ég hef bara áhyggjur af því að það muni færri fyrirtæki nýta sér þessa leið og frekar fara í beina uppsögn og þá uppsögn án þess að nýta sér greiðslur í uppsagnarfrestarfrumvarpinu.“

Vilhjálmur óttast að fyrirtæki hafi þegar dregið sig úr leiðinni vegna strangra skilyrða um arðgreiðslur.

„Það vakti allavega athygli í gær að Icelandair sagði að hlutabótaleiðin myndi ekki gagnast þeim lengur og fóru aðrar leiðir í því að draga úr launakostnaðinum, varðandi þá sem voru á hlutabótaleiðinni. Svo vitum við náttúrulega að Icelandair er þessa dagana að leita að nýjum hluthöfum og auknu fjármagni inn í félagið. Þá getur verið mjög mikið óhagræði í því að hafa svona skilyrði.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.