Íslenski boltinn

Topp 5 í kvöld: Gummi Steinars, Þórir og Guðjón Pétur segja frá uppáhalds mörkunum sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson er ekki bara handlaginn heldur einnig sparkviss með afbrigðum.
Guðjón Pétur Lýðsson er ekki bara handlaginn heldur einnig sparkviss með afbrigðum. vísir/bára

Fjórði þáttur Topp 5 er á dagskrá Stöðvar 2 Sports í kvöld. Þátturinn, sem er í umsjá Guðmundar Benediktssonar, hefst klukkan 20:00.

Í þáttunum velja þrír leikmenn fimm uppáhalds mörkin sín á ferlinum og ræða um þau.

Í þættinum í kvöld ræða þeir Guðmundur Steinarsson, Þórir Guðjónsson og Guðjón Pétur Lýðsson um sín uppáhalds mörk.

Hér fyrir neðan má sjá Guðmund tala um glæsilegt mark sem hann skoraði fyrir Keflavík gegn KR suður með sjó sumarið 2001.

Klippa: Topp 5 - Guðmundur Steinarsson

Guðmundur Steinarsson (fæddur 1979) er einn af markahæstu leikmönnum í sögu efstu deildar á Íslandi. Hann er Keflvíkingur og lék lengst af ferilsins með liðinu. Guðmundur hóf ferilinn með Keflavík 1996 og varð bikarmeistari með liðinu árið eftir. Hann lék með KA í 1. deild sumarið 1999 en fór svo aftur til Keflavíkur. Guðmundur fór til Brønshøj Boldklub í Danmörku 2002 og lék þar í tvö ár. Sumarið 2003 lék hann með Fram. Guðmundur kom svo aftur til Keflavíkur 2004 og lék þar til 2012 ef frá eru taldir nokkrir mánuðir þar sem hann var í láni hjá Vaduz í Liechtenstein. Guðmundur varð bikarmeistari með Keflavík 2004 og 2006 og sumarið 2008 var hann markahæstur og valinn leikmaður ársins. Guðmundur lauk svo ferlinum með Njarðvík.

Guðmundur lék 255 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 81 mark. Hann fékk gullskóinn 2008, silfurskóinn 2000 og var valinn leikmaður ársins 2008. Guðmundur varð þrisvar sinnum bikarmeistari með Keflavík. Hann lék þrjá A-landsleiki.

Þórir Guðjónsson (fæddur 1991) er uppalinn hjá Fram en fór í Val í þriðja flokki. Hann lék sem lánsmaður með Leikni R. 2011 og var svo lánaður til Fjölnis 2012 og gekk til liðs við Grafarvogsliðið ári seinna. Þórir lék með Fjölni til 2018 þegar hann fór í Breiðablik. Í vetur gekk hann svo til liðs við Fram.

Þórir hefur leikið 128 leiki í efstu deild og skorað 33 mörk.

Guðjón Pétur Lýðsson (fæddur 1987) er frá Álftanesi. Fyrstu árin í meistaraflokki lék hann með Haukum, Breiðabliki, Stjörnunni og Álftanesi. Hann festi svo rætur hjá Haukum og hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild 2009. Eftir tímabilið 2010 fór Guðjón til Vals. Þar lék hann í tvö ár og var einnig um tíma í herbúðum Helsingborg sem varð sænskur meistari tímabilið sem hann lék með þeim. Guðjón fór til Breiðabliks 2013 og var þar í þrjú ár. Hann lék svo með Val og varð Íslandsmeistari með liðinu 2017 og 2018. Eftir tímabilið 2018 samdi Guðjón við KA. Hann stoppaði stutt við á Akureyri og fór aftur til Breiðabliks áður en tímabilið í fyrra hófst.

Guðjón hefur leikið 200 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 45 mörk. Hann varð Íslandsmeistari með Val 2017 og 2018.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.