Fótbolti

Tíu þúsund sýndaráhorfendur á leik Jóns Dags og félaga í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í leik AGF og Randers í gær en fyrir aftan hann má sjá sýndaráhorfendurnar sem studdu liðið sitt í gegnum Zoom fjarfundabúnaðinn.
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í leik AGF og Randers í gær en fyrir aftan hann má sjá sýndaráhorfendurnar sem studdu liðið sitt í gegnum Zoom fjarfundabúnaðinn. EPA-EFE/HENNING BAGGER

Íslenski knattspyrnumaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson var í liði AGF Aarhus í gær þegar liðið spilaði vægast sagt mjög skrýtinn heimaleik.

Það var ekki nóg með að þetta var fyrsti alvöru knattspyrnuleikur liðanna í langan tíma þá var umgjörðin í kringum leikinn afar sérstök.

AGF tók þarna á móti Randers á heimavelli sínum Ceres Park sem var ekki með neina alvöru áhorfendur en það voru samt áhorfendur á vellinum í gegn fjarfundabúnaðinn Zoom.

Alls fengu tíu þúsund stuðningsmenn AGF að fá að vera með á þessu risa Zoom-spjalli. AGF var síðan með fullt af skjáum á vellinum þar sem áhorfendurnir sáust í gegnum fjarfundakerfið.

Skjáirnir voru niðri við leikvöllinn og fóru ekkert framhjá leikmönnunum sem spiluðu þennan leik.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig skjáunum var stillt upp neðst í áhorfendastúkunni og þeir voru því ekki lang frá vellinum sjálfum.

Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en Jón Dagur var tekinn af velli á 67. mínútu þegar AGF var marki undir. Jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en í uppbótatíma.

Þetta var athyglisverð tilraun hjá AGF og setti vissulega mikinn svip á leikinn. Það voru samt einhverjir mjög ósáttir því þeir héldu að þeir fengu að sjá leikinn í gegnum Zoom en svo var ekki.

Discovery á sjónvarpsréttinn frá dönsku deildinni og þessir fjaráhorfendur þurftu því að vera að horfa á sjónvarpið sitt ætluðu þeir að sjá hvað var að gerast inn á vellinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.