Innlent

Sautján ára piltur annan mánuð í gæsluvarðhaldi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Sautján ára piltur, sem grunaður er um alvarlega líkamsárás, mun þurfa að sæta gæsluvarðhaldi til 25. júní næstkomandi. Þegar því lýkur mun pilturinn hafa verið rúma tvo mánuði í haldi.

Pilturinn, sem fæddur er árið 2003, er grunaður um að hafa ráðist að öðrum með hníf og stungið hann í tvígang. Árásin átti sér stað í Breiðholti síðdegis 23. apríl og var fórnarlambið flutt á slysadeild. Daginn eftir var drengurinn úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sem var svo framlengt um mánuð þann 30. apríl.

Drengurinn var settur í einangrun í fangelsi, þrátt fyrir að lög segi að börn undir átján ára skuli ekki sæta gæsluvarðhaldi nema önnur úrræði bjóðist ekki. Í umfjöllun Ríkisútvarpsins á sínum tíma sögðu bæði fangelsismálastjóri og forstjóri Barnaverndarstofu segja sárasjaldgæft að þetta sé gert, en það væri þó ekki brot á lögum eða barnasáttmálanum.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði hann svo í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald í dag, sem varir til 25. júní. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er drengurinn „vistaður á viðeigandi stofnun“ og að rannsókn málsins miði vel.


Tengdar fréttir

Tvær alvarlegar líkamsárásir á borði lögreglu

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar tvær alvarlegar líkamsárásir, eina í Breiðholti síðdegis í gær og aðra sem gerð var í Kópavogi skömmu fyrir miðnætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×