Innlent

Eigendur Hríseyjar Seafood í áfalli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikill eldur logaði í frystihúsinu í Hrísey í morgun. Slökkviliðsmenn töldu sig hafa náð tökum á eldinum á tíunda tímanum.
Mikill eldur logaði í frystihúsinu í Hrísey í morgun. Slökkviliðsmenn töldu sig hafa náð tökum á eldinum á tíunda tímanum. Steinar Ólafsson

Einn eigenda fiskvinnslunnar Hríseyjar Seafood, hjá hverri mikill eldur kviknaði í frystihúsi snemma í morgun, segir að áfallið sé mikið. Allir hafi þó komist heilir frá eldsvoðanum sem skipti mestu máli.

Tilkynning barst um mikinn eld í frystihúsi Hríseyjar Seafood í Hrísey um klukkan fimm í morgun. Eldurinn barst í nyrsta hluta hússins, sem og í annað fiskvinnsluhús á hafnarsvæðinu. Mikinn reyk frá eldinum lagði yfir byggðina í Hrísey en slökkviliðsmenn töldu sig hafa náð tökum á eldinum nú á tíunda tímanum. Ljóst er að tjón er þónokkuð en ekkert hefur verið gefið út um eldsupptök.

Telma Róbertsdóttir festi kaup á Hrísey Seafood ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Jóelssyni, í október 2019. Þau búa ekki í eyjunni en Sigurður lagði af stað norður eldsnemma í morgun.

Telma segir í samtali við Vísi að þau hjónin hafi verið vakin í nótt með fregnum af eldinum. Fátt sé þó hægt að segja um brunann að svo stöddu, það sé einfaldlega lítið vitað um stöðuna.

Verkstjóri hjá fiskvinnslunni, sem búsettur er í íbúð á efri hæð, vaknaði við eldinn, að sögn Telmu, og komst heilu og höldnu út úr húsinu.

Þá segir Telma að áfall eigendanna sé mikið en mestu skipti að allir hafi komist heilir frá eldsvoðanum.

„Þetta er svo mikill harmleikur líka fyrir samfélagið [í Hrísey]. En á svona stundu er maður þakklátastur fyrir að það eru allir heilir. Og svo verðum við bara að bíða og sjá.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.