Innlent

Kórónu­veiru­frum­varp Bjarna sam­þykkt á Al­þingi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/vilhelm

Alþingi samþykkti nú síðdegis lagafrumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um að fyrirtæki geti fengið frest á tryggingagjaldi og staðgreiðslu opinberra gjalda. Frumvarpið var samþykkt samhljóða með 47 atkvæðum en sextán þingmenn voru fjarverandi.

Með frumvarpinu, sem lagt var fram til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar á íslenskt efnahagslíf, verður fyrirtækjum veittur mánaðarfrestur á helmingi tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars. Bjarni kynnti frumvarpið á ríkisstjórnarfundi í gærkvöldi og þá mælti hann fyrir því á sérstökum þingfundi í morgun.

Gert er ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi í för með sér seinkun á tekjum ríkissjóðs að fjárhæð 22 milljarðar króna.

Eindagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds ætti að óbreyttu að vera 16. mars. Með samþykkt frumvarpsins verður eindaga seinkað til 15. apríl vegna helmings þeirra gjalda sem greiða hefði átt í síðasta lagi næstkomandi mánudag.

Meðan greiðslufrestur varir samkvæmt frumvarpinu verður unnið að útfærslu nýrrar leiðar til að tryggja fyrirtækjum í erfiðleikum úrræði til greiðsludreifingar.


Tengdar fréttir

Samkomubann í fjórar vikur

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti á blaðamannafundi nú fyrir skemmstu samkomubann í fjórar vikur sem tekur gildi á miðnætti 15. mars, það er aðfaranótt næstkomandi mánudags.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×