Innlent

Héldu að ekki þyrfti að ráðast svo bratt í frestun gjalddaga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin mun á fundi sínum klukkan hálf níu í kvöld ræða frumvarp um heimild til að fresta gjalddögum. Um er að ræða aðgerðir til að koma til móts við afleiðingar kórónuveirunnar á íslenskt efnahagslíf. Þessu greindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra frá á borgarafundi Stöðvar 2 og Vísis í kvöld.

Katrín sagði að ríkisstjórnin hefði ekki talið að ráðast þyrfti svona hratt í umræddar aðgerðir, sem var á meðal þeirra sem ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag, en nú er ljóst að þarf að flýta þeim. Hún kvað frestun gjalddaga þekkta aðgerð í efnahagsþrengingum en með henni er ríkinu gert kleift að gefa fyrirtækjum tækifæri til að fresta gjalddögum á ýmsum greiðslum. 

Fundurinn í kvöld er annar ríkisstjórnarfundur dagsins en fyrr í dag fundaði ríkisstjórnin með leiðtogum stjórnarandstöðunnar og Icelandair.

Þá hefur verið boðað til aukafundar á Alþingi á morgun þar sem lögð verða fram frumvörp um hluta þeirra aðgerða sem stjórnvöld ætla að grípa til vegna kórónuveirunnar og áhrifa hennar á efnahagslífið. 

Annar ríkisstjórnarfundur er jafnframt á dagskrá á morgun. Þar verður m.a. kynnt frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra sem miðar að því að tryggja fólki í sóttkví launagreiðslu. Katrín sagði á borgarafundinum í kvöld að hún ætti von á því að fundir ríkisstjórnarinnar yrðu mjög tíðir næstu misserin.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×