Innlent

Vernda bílstjóra Strætó og hleypa inn að aftan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Farþegara í Strætó fara nú inn að aftan en ekki að framan.
Farþegara í Strætó fara nú inn að aftan en ekki að framan. Vísir/Vilhelm

Bílstjórar Strætó munu hætta að hleypa inn í vagnana að framan til að vernda þá gagnvart mögulegu smiti á kórónuveirunni. Stjórn Strætó samþykkti þetta á fundi sínum í hádeginu.

Nú fara farþegar aðeins inn í vagnana að aftan. Þetta þýðir eðli máls samkvæmt að skert eftirlit verði með því hverjir hafa greitt fargjald og hverjir ekki þar sem bílstjórar munu hafa minna eftirlit.

Viðskiptavinir Strætó eru hvattir til að fylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir, þvo hendur reglulega og spritta. Góð regla er að vera með sitt eigið handspritt á sér. Þá eru viðskiptavinir hvattir til að sýna varkárni í samskiptum, vera meðvitaðir um smitleiðir veirunnar og ekki ferðast með almenningssamgöngum ef grunur leikur á smiti.

Þeir viðskiptavinir, sem hafa tök á, eru beðnir um að ferðast með Strætó utan háannatíma til að minnka þrengsli og snertingar í vagninum.

Strætó hefur hingað til alfarið hlýtt fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir. Vagnar eru þrifnir reglulega, leiðbeiningar sendar til allra starfsmanna, vagnstjórar hafa spritt og klúta til taks til að þrífa hendur og nánasta umhverfi sitt í vagninum. Þá er staðan metin reglulega og upplýsingum og skilaboðum komið áleiðis til starfsmanna og viðskiptavina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×