Erlent

Var í beinni þegar jarð­skjálftinn reið yfir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ardern horfir upp í loft þinghússins á meðan jarðskjálftinn reið yfir.
Ardern horfir upp í loft þinghússins á meðan jarðskjálftinn reið yfir. Skjáskot

Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands var í sjónvarpsviðtali í beinni útsendingu í Wellington, höfuðborg landsins, þegar jarðskjálfti að stærð 5,8 reið yfir nærri borginni.

Ardern var mætt til viðtals í morgunþættinum AM á nýsjálensku sjónvarpsstöðinni Newshub snemma á mánudagsmorgun. Hún var ekki í sjónvarpssal heldur stödd í þinghúsinu í Wellington þegar allt lék skyndilega á reiðiskjálfi.

„Það er dálítill jarðskjálfti hérna, Ryan,“ sagði Ardern þá og ávarpaði þar Ryan Bridge, stjórnanda þáttarins. „Nokkuð stór skjálfti.“

Þó að hún fyndi greinilega vel fyrir jarðskjálftanum hélt Ardern ró sinni allan tímann og brosti framan í myndavélina. Skjálftinn varði aðeins í nokkrar sekúndur og að honum loknum fullvissaði hún Bridge um að allt væri í lagi og að viðtalið gæti haldið áfram. Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að neðan.

Upptök skjálftans voru um 30 kílómetra norðvestur af borginni Levin, sem staðsett er nærri höfuðborginni. Þrír eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, allir tæplega 4 að stærð. Lítið sem ekkert tjón virðist hafa orðið af skjálftanum og þá hafa heldur engar fréttir borist af slysum á fólki.

Jarðskjálftar eru tíðir á Nýja-Sjálandi. Stórir jarðskjálftar ollu gríðarlegri eyðileggingu í landinu árin 2010 og 2011. Alls létust 185 í skjálftunum tveimur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×