Innlent

„Við munum fylgja þessu máli fast eftir“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur komið á framfæri við hörðum mótmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta um ferðabanni til Evrópu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur komið á framfæri við hörðum mótmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta um ferðabanni til Evrópu. Vísir/Vilhelm

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra hefur komið mótmælum íslenskra stjórnvalda á framfæri við Bandaríkjastjórn vegna flugbannsins og óskað eftir símafundi með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður okkar, ræddi við Guðlaug Þór á Alþingi fyrir hádegi í dag. Aðspurður hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast bregðast við sagði ráðherra:

„Við höfum nú þegar brugðist við, við gerðum það snemma í morgun. Í morgun hef ég átt samtal við sendiherra Bandaríkjanna sem er staddur í Kaliforníu. Sömuleiðis kallað staðgengil hans á minn fund. Við höfum komið fram hörðum mótmælum vegna þessa og lagt á það áherslu að við séum undanskilin bæði út af landfræðilegri legu okkar en ekki síst þeirra aðgerða sem við höfum farið í út af veirunni.“

Býstu við að það verði tekið jákvætt í þetta?

„Það verður bara að koma í ljós. Ég hef sömuleiðis beðið utanríkismálanefnd að eiga fund með mér og sömuleiðis farið fram á símafund með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, því við munum fylgja þessu máli fast eftir.“

Guðlaugur sagði að það yrði að koma í ljós hvort að símafundurinn verði í dag.

„Aðalatriðið er þetta að við höfum komið skilaboðum okkar og mótmælum áfram með ákveðnum hætti og sömuleiðis þá höfum við komið öllum þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar í þessu máli áfram til Bandaríkjanna og annarra þeirra sem málið varða,“ sagði Guðlaugur Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×