Viðskipti innlent

Icelandair fellur um rúm 20% eftir ferðabann Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að banna ferðalög frá Evrópu næsta mánuðinn vegna kórónuveirunnar er talin munu hafa mikil áhrif á rekstur Icelandair.
Ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að banna ferðalög frá Evrópu næsta mánuðinn vegna kórónuveirunnar er talin munu hafa mikil áhrif á rekstur Icelandair. Vísir/vilhelm

Hlutbréf í Icelandair hríðféllu við opnun kauphallar í morgun. Lækkunin nam 23% í fyrstu viðskiptu morgunsins en OMXI10-vísitalan féll á sama tíma um 9,38%. Fjármálamarkaðir erlendis hafa einnig brugðist hart við tíðindum næturinnar um að ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna verði bönnuð næsta mánuðinn.

Allar tölur voru rauðar í kauphöllinni í morgun. Fyrir utan Icelandair féll verð hlutabréfa í Festum, Kviku og Marel mest, í kringum ellefu til tólf prósent.

Í tilkynningu Icelandair til kauhallararinnar í morgun var varað við því að ferðabannið til Bandaríkjanna ætti eftir að hafa veruleg áhrif á flugáætlun félagsins. Það ætli að draga enn frekar úr ferðum í mars og apríl, umfram það sem það hafði áður tilkynnt um.

Erlendir markaðir hafa einnig verið slegnir yfir óvæntri ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að banna ferðalög frá Evrópu næstu þrjátíu dagana sem hann tilkynnti um í sjónvarpsávarpi í nótt.

Japanska Nikkei-vísitalan féll um 4,4 prósent og hefur ekki verið lægri í um þrjú ár. Í Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi féllu helstu vísitölur um 6-7 prósent.

Vestanhafs greip svartsýni einnig markaði, ekki síst eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum. AP-fréttastofan segir að S&P 500-vísitalan sé aðeins einu prósentustigi frá dumbungsmarkaði.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Trump lokar á ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×