Fótbolti

Emil bíður eftir meiri upplýsingum frá Ítalíu en útilokar ekki að spila með FH

Anton Ingi Leifsson skrifar
Emil Hallfreðsson gæti leikið á Íslandi í sumar.
Emil Hallfreðsson gæti leikið á Íslandi í sumar. vísir/s2s

Emil Hallfreðsson hefur enn ekki gert upp hug sinn hvort að hann spili með FH í Pepsi Max-deild karla í sumar en hann segir enn fremur að hann sé samningsbundinn ítalska C-deildarliðinu Padova þangað til í lok júní.

Emil hefur æft með FH undanfarnar vikur eftir að kórónuveiran skall á Ítalíu og hann segir að það sé góð stemning í FH-liðinu er þrjár vikur eru þangað til að deildin fari af stað.

„Ég held að staðan sé góð og stemningin fín. Það eru ekki búnir að vera neinir leikir en æfingarnar hafa verið góðar miðað við allar reglurnar. Ég held að þetta sé bara í fínum gír,“ sagði Emil við Svövu Kristínu Grétarsdóttur. Mikið hefur verið rætt um FH í topp sex en ekki að berjast um titilinn.

„Eigum við ekki bara að kýla niður væntingar og þykjast vera „underdogs“ í ár? Ég held að þeir eigi eftir að vera flottir en það eru mörg önnur góð lið. Ég held að þetta verði nokkuð jafnt. Ef FH kemst í gírinn þá verða þeir pottþétt í toppbaráttu.“

Hann segir að enginn niðurstaða sé kominn í hans mál.

„Ég er samningsbundinn Padova til 30. júní og ég er að sjá hvað gerist með deildina; hvort hún fari af stað eða ekki. Ég held að það eigi eitthvað að koma í ljós á fimmtudaginn. Á meðan ég er í óvissunni þá er ég hér og æfi með FH sem er frábært. Þetta er minn klúbbur en tíminn verður að leiða það í ljós,“ en hann er klár í að spila með FH í sumar?

„Maður er alltaf opinn fyrir því en ég get samt ekki sagt já eða nei. Ég veit ekki hvernig þetta fer úti. Þeir eru að tala um það að tímabilið verði til 1. ágúst en það er möguleiki,“ sagði Emil um möguleikann að spila með FH í sumar.

Klippa: Sportpakkinn - Emil HallfreðssonFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.