Erlent

Segja Cummings hafa farið oftar frá Lundúnum

Andri Eysteinsson skrifar
Breskir fjölmiðlar sátu fyrir Cummings fyrir utan heimili hans í London.
Breskir fjölmiðlar sátu fyrir Cummings fyrir utan heimili hans í London. Getty/Holly Adams

Breski stjórnmálaráðgjafinn Dominic Cummings, sem gegnt hefur stöðu ráðgjafa Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í tæplega eitt ár, stendur nú frammi fyrir nýjum ásökunum um að hafa virt ferðabann stjórnvalda vegna faraldursins að vettugi.

Áður hefur verið greint frá því að Cummings hafi ásamt eiginkonu sinni farið frá Lundúnum til Durham í norð-austur Englandi til þess að einangra sig nærri fjölskyldu Cummings eftir að hafa fundið fyrir einkennum kórónuveirusmits. BBC greinir frá.

Nú hafa blöðin Observer og Sunday Mirror greint frá því að sést hafi til Cummings í norð-austur Englandi í tvígang eftir að hann hafði jafnað sig af veikindum og snúið aftur til vinnu í Lundúnum.

Bann við óþarfa ferðalögum hefur verið í gildi í Bretlandi undanfarnar vikur og hefur mikillar reiði gætt í bresku samfélagi vegna ferðalaga Cummings og afstöðu stjórnvalda gegn þeim.

Kallað hefur verið eftir því að Cummings segi af sér eða að Johnson einfaldlega reki hann úr starfi.

Verkamannaflokkurinn hefur kallað eftir því að málið verði rannsakað og segir einn skuggaráðherra flokksins, Sarah Jones, að skiljanlega sé fólk ósátt við Cummings.

„Ég tel að fólki finnist það vera svo að ein lög gildi fyrir þau og önnur fyrir fólk á efstu stigum“ sagði Jones.

Talsmenn Downingstrætis hafa sagt fréttaflutning rangan en lögreglan í Durham kveðst hafa rætt við föður Cummings og hann staðfest veru Dominic Cummings í Durham.


Tengdar fréttir

Kalla eftir afsögn ráðgjafa Johnson eftir brot á sóttvarnareglum

Kallað hefur verið eftir afsögn Dominic Cummings, helsta ráðgjafa forsætisráðherra Bretlands, eftir að Cummings ferðaðist frá Lundúnum til Durham eftir að hafa verið gert að einangra sjálfan sig eftir að hafa fundið fyrir einkennum kórónuveirusmits.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×