Fótbolti

Burst hjá United | Grátlegt tap FCK í Tyrklandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mata og Ighalo fagna á tómum vellinum í Austurríki.
vísir/getty

Manchester United er í þægilegri stöðu eftir fyrri leikinn gegn LASK frá Austurríki í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar en United vann 5-0 sigur í kvöld.

Leikið var fyrir luktum dyrum í Austurríki vegna kórónuveirunnar en Odion Ighalo skoraði fyrsta markið á 28. mínútu með glæsilegu skoti í slá og inn. Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Annað mark Manchester United skoraði Daniel James á 58. mínútu eftir laglega skyndisókn en Wales-verjinn hafði ekki skorað í síðustu 33 leikjum. Juan Mata skoraði þriðja markið átta mínútum fyrir leikslok eftir laglegt spil.

Veislunni var ekki lokið því Mason Greenwood bætti við fjórða marki United í uppbótartíma og skömmu síðar var Andreas Pereira á skotskónum eftir undirbúning Fred.

Lokatölur 5-0 og ljóst að Man. United er með annan fótinn og rúmlega það inn í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar en nú er spurning hvort að síðari leikurinn muni fara fram í næstu viku.

FCK er 1-0 undir gegn stjörnuprýddu liði Istanbul Basaksehir. Sigurmarkið skoraði Edin Visca úr umdeildri vítaspyrnu á 88. mínútu eftir að brotið var á Demba Ba. Ragnar Sigurðsson var ekki í leikmannahópi FCK vegna meiðsla.

Basel gerði sér lítið fyrir og vann 3-0 sigur á Frankfurt á útivelli. Samuele Campo kom Basel yfir í fyrri hálfleik og í síðari hálfleik bættu þeir Kevin Bua og Fabian Frei við sitthvoru markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×