Innlent

Fram­kvæmda­stjóri Gray Line segir upp­sagnir ekki vera fyrsta kost

Atli Ísleifsson skrifar
Þórir Garðarsson segir mikinn óvissutíma ríkja í ferðaþjónustunni.
Þórir Garðarsson segir mikinn óvissutíma ríkja í ferðaþjónustunni. Vísir/Vilhelm

Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri Gray Line, segist hafa miklar áhyggjur af ástandinu í ferðaþjónustunni sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og þeirra aðgerða sem hefur þurft að grípa til.

„Þetta er náttúrulega mikill óvissutími í ferðaþjónustunni og flestir eru náttúrulega í því að draga saman. Það berast alls staðar fréttir af því að það dregst saman í sölu og bókunum inn á sumarið. Það á ekkert bara við um Ísland heldur allan heim,“ segir Þórir.

Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti í gærkvöld ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag. Bannið nær til allra erlendra ríkisborgara sem hafa verið á Schengen-svæðinu, Íslandi þar með töldu, síðustu 14 daga. 

Von á afbókunum

Þórir segir að starfsmenn Gray Line hafi áhyggjur af því að það muni ganga illa að innheimta hjá erlendum söluaðilum. 

„Þeir fleyta sig áfram á fyrirframbókunum og þegar „cash-flowið“ minnkar hjá þeim geta þeir átt í vandræðum. Þetta getur því haft töluvert miklar afleiðingar. Núna eigum við líka von á afbókunum sem við þurfum að endurgreiða.“

Uppsagnir ekki fyrsti kostur

Þórir segir að það starfi um 120 manns hjá Gray Line á Íslandi í dag. „Það er alveg ljóst að við höfum ekki vinnu fyrir alla þá starfsmenn. En það er kannski ekki fyrsti kostur að segja upp starfsmönnum þar sem það er ekki aðgerð sem rífur strax þar sem uppsagnarfrestur er þrír til sex mánuðir. Á þeim tíma þurfum við á þessu góða starfsfólki að halda.

Við erum í augnablikinu svolítið í lausu lofti með þetta. Við erum að sjá hvaða leiðir við höfum. Einhverjir starfsmenn hafa boðist til að fara í launalaust leyfi, sumarfrí snemma og svo framvegis. Það bætir eitthvað úr en dugar ekki til. Það er því spurning hvaða verkefni við getum haft fyrir þá. Hvernig við getum greitt launin þeirra. Stærsti rekstrarkostnaður fyrirtækisins er náttúrulega laun starfsmanna,“ segir Þórir.


Tengdar fréttir

Icelandair fellur um rúm 20% eftir ferðabann Trump

Hlutabréfaverð í íslensku kauphöllinni hrundi um hátt í tíu prósent í fyrstu viðskiptum í morgun. Mest féll verð bréfa í Icelandair, um 23%, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um að ferðalög frá Evrópu yrðu bönnuð næsta mánuðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×