Fótbolti

Leikmaður Juventus greindur með kórónuveiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rugani er miðvörður í aðalliði Juventus.
Rugani er miðvörður í aðalliði Juventus. Vísir/Getty

Daniele Rugani, miðvörður Juventus, Ítalíumeistaranna í knattspyrnu, hefur verið greindur með kórónuveiruna sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19.

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu frá félaginu. Í tilkynningunni segir einnig að félagið hafi nú sett í gang lögboðnar einangrunarráðstafanir, bæði fyrir leikmanninn sjálfan og þá sem hafa verið í samskiptum við hann. Þannig má leiða líkur að því að leikmenn og starfsmenn þjálfarateymis Juventus þurfi að fara í sóttkví, að minnsta kosti einhverjir.

Á dögunum var öllum íþróttaviðburðum á Ítalíu frestað til 4. apríl hið minnsta, með það fyrir augum að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar, en hún hefur haft mikil áhrif á Ítalíu. Þar í landi er nú samkomu- og samgöngubann sem nær yfir gjörvallt landið.

Samkvæmt nýjustu tölum eru nú 10590 manns smitaðir í landinu, og hafa alls 827 látist af völdum COVID-19, þar af 196 á síðasta sólarhring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×