Innlent

Náði nær allri eftirför steypubílsins eftir Sæbrautinni á myndband

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregluþjónar við steypubílinn hjá Kleppsvegi í dag.
Lögregluþjónar við steypubílinn hjá Kleppsvegi í dag. Vísir/vilhelm

Ekki hefur enn náðst að ræða við manninn sem stal steypubíl í miðbæ Reykjavíkur í morgun. Til stendur að yfirheyra hann seint í kvöld. Fjölmörg myndbönd náðust af atvikinu í dag og einn sjónarvottur náði nær allri eftirför lögreglu eftir Sæbrautinni á myndband, sem sjá má neðar í fréttinni.

Málið vakti mikla athygli í morgun. Atburðarásin liggur nokkuð ljóst fyrir, að sögn Guðmundar Páls Jónssonar lögreglufulltrúa hjá lögreglufnni á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var undir áhrifum þegar hann stal steypubílnum, fullum af steypu, á byggingasvæði við Vitastíg á tíunda tímanum í morgun.

Ferðalag steypubílsins í morgun sést hér á korti.Vísir/Hjalti

Því næst ók maðurinn niður Laugaveg, Bankastræti og Lækjargötu og næst sem leið lá eftir Sæbrautinni. Fjölmennt lögreglulið veitti manninum eftirför og áttu gangandi vegfarendur fótum sínum fjör að launa. För mannsins var loks stöðvuð við Kleppsveg, hann stökk þá út úr bílnum og lögreglumenn eltu hann uppi og handtóku hann.

Einn sjónarvottur fylgdi lögreglu eftir nær endilangri Sæbrautinni er hún veitti steypubílnum eftirför og náði herlegheitunum á myndband. Myndbandið, sem sjá má hér fyrir neðan, hefst rétt áður en ökumaður steypubílsins sveigir af akbrautinni, yfir umferðareyju og loks upp á göngustíg við sjóinn. Upptökunni lýkur ekki fyrr en ökumaðurinn stöðvar bílinn við Kleppsveg.

Guðmundur Páll segir í samtali við Vísi nú síðdegis að til standi að taka skýrslu af manninum í kvöld, líklega fremur seint. Það hafi ekki náðst í dag vegna ástands mannsins, sem var undir áhrifum líkt og áður segir. Mikil mildi þykir að enginn hafi slasast í dag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×