Innlent

Ganga fjörur í leit að sjómanninum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Frá leitinni við Vopnafjörð í fyrradag.
Frá leitinni við Vopnafjörð í fyrradag. Mynd/Jón Sigurðarson

Leit að sjómanninum sem féll útbyrðis af netabát í Vopnafirði hófst aftur klukkan tíu í morgun. Björgunarsveitir munu ganga fjörur á svæðinu í dag.

Maðurinn er talinn hafa fallið útbyrðis af netabátnum Erling KE-140, sem hafði verið á grálúðuveiðum, við innsiglingu í Vopnafirði snemma á mánudagsmorgun, skammt utan við höfnina.

Að sögn lögreglunnar á Austurlandi voru engin vitni af því þegar maðurinn féll í sjóinn. Búið er að taka skýrslu af öllum sem voru um borð og eru málsatvik nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Austurlandi.

Leitarskilyrði voru nokkuð erfið í gær vegna veðurs. Talsverður sjógangur var vegna vinds og var leitinni hætt síðdegis í gær.

Leitin hófst aftur um klukkan tíu í morgun að sögn Hinriks Ingólfssonar, formanns björgunarsveitarinnar Vopna.

„Við erum að ganga fjörur og erum svo með báta og notum jet-ski til að leita með fram fjörunum," segir Hinrik. „Leitarsvæðið er frá Tangasporði inn í Sandvík og sandfjörurnar þar inn frá. Svæðið byggist á mati á straumreikningum, að þetta sé líklegasta svæðið miðað við það. Ætlum að reyna fínkemba það."

Um tuttugu til þrjátíu manns taka þátt í leitinni í dag. Hinrik sgeir skilyrði til leitar betri en í gær. „Það er smá vindur og hreyfing fyrir bátahópana en þetta ætti að sleppa."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×