Fótbolti

Wenger vill hætta með janúargluggann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Mynd/NordicPhotos/Getty

Arsene Wenger, fyrrum stjóri Arsenal til margra ára og nú starfsmaður FIFA, leggur til að félagaskiptaglugginn í janúar verði lagður niður. Hann segir að þeir leikmenn sem spili minna gefist upp löngu fyrir jól og bíði eftir að komast burt í janúar.

Wenger ræddi við Mirror um breytingar sem gætu orðið á fótboltanum eftir að heimsfaraldurinn sem nú ríður yfir róast. Hann segir að ein leiðin væri að hætta með janúarglugann þar sem peningarnir verða væntanlega minni og leikmennirnir gefist allt of fljótt upp.

„Ég vil taka út janúargluggann. Stjórarnir geta ekki ráðið vel við hann. Í október þegar leikmaður er ekki að spila, reynir hann að finna eitthvað annað og bíður þangað til í janúar og fer. Hann er ekki tilbúinn í að leggja sig fram og gefst upp,“ sagði Wenger við Mirror.

Í viðtalinu ræddi Wenger einnig um laun til umboðsmanna og hann segir að þau hafi rokið upp úr öllu valdi.

„Þegar Marc Roger og Jean-Francois Larios tryggðu að Patrick Viera kæmi til Arsenal árið 1996 þegar hann var nálægt því að ganga í raðir Ajax, þá borgaði ég þeim glaður. En þegar ég borga umboðsmanni þegar leikmaður framlengir samning sinn - er ég ekki viss um að hann hafi gert mikið.“

„Það sem truflar mig er að umboðsmaðurinn getur grætt á báðum félögum; liðinu sem selur leikmanninn og kaupir hann,“ sagði Wenger og bætti við því að aftur yrði tekið upp svokallað leyfiskerfi hvað varðar umboðsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×