Innlent

Flugfreyjur og Icelandair byrjuð að funda á ný

Kristín Ólafsdóttir og Heimir Már Pétursson skrifa
Frá fundi samninganefnda FFÍ og Icelandair í fyrradag.
Frá fundi samninganefnda FFÍ og Icelandair í fyrradag. Vísir/Sigurjón

Fundur samninganefnda Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Icelandair hófst núna klukkan hálf níu í húsakynnum ríkissáttasemjara í Karphúsinu í Borgartúni. Fundi nefndanna sem átti að hefjast klukkan fimm síðdegis í gær var frestað skömmu áður en hann átti að hefjast að ósk Flugfreyjufélagsins en viðræðurnar eru sagðar á afar viðkvæmu stigi.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun samkvæmt heimildum að Icelandair íhugaði nú að semja við nýtt stéttarfélag flugfreyja, sem ekki styðja stefnu FFÍ.

Sylvía Kristín Ólafsdóttir formaður samninganefndar Icelandair er í fjölmiðlabanni en sagði þó í samtali við fréttastofu fyrir fundinn í morgun, innt eftir því hvort Icelandair hygðist semja við annað stéttarfélag, að samninganefndin væri í viðræðunum af heilum hug. Nefndin vonaði að árangur náist í dag.

Samninganefndir sátu fyrst saman í um tíu mínútur í morgun en funduðu svo hver í sínu lagi. Fundað verður til ellefu hið minnsta en þá verður gert hlé vegna fundar sem ríkissáttasemjari þarf að sitja með hjúkrunarfræðingum. Annars er reiknað með að fundað verði eins lengi og FFÍ og Icelandair vilja.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×