Fótbolti

Mælir sérstaklega með sex efnilegum íslenskum fótboltastrákum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar marki með íslenska 17 ára landsliðinu. Hann komst á listann en ekki þeir Andri Lucas Guðjohnsen og  Andri Fannar Baldursson sem eru þarna með honum á myndinni.
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar marki með íslenska 17 ára landsliðinu. Hann komst á listann en ekki þeir Andri Lucas Guðjohnsen og  Andri Fannar Baldursson sem eru þarna með honum á myndinni. Getty/Piaras Ó Mídheach

Dániel Sebestyén, sænskur leikgreinandi og njósnari, mælir með sex efnilegum íslenskum fótboltastrákum sem hann hvetur fótboltáhugamenn til að fylgjast með í framtíðinni.

Dániel hefur horft mikið á leikjum með íslenskum unglingalandsliðunum og hefur með því öðlast yfirsýn yfir þá íslensku leikmenn sem hafa mestu burðina til að ná langt á næstu árum.

Fótbolti.net vakti athygli á samantekt Dániel Sebestyén en þar fer hann lengra en bara að nefna þessa sex leikmenn heldur fer einnig yfir kosti þeirra.

Fimm af þessum sex leikmönnum eru komnir út í atvinnumennsku en einn þeirra er enn í Pepsi Max deildinni og mun spila þar í sumar.

Leikmennirnir eru Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson og Kolbeinn Birgir Finnsson sem eru allir orðni tvítugir og svo Danijel Dejan Djuric, Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Valgeirsson sem eru allir sautján ára gamlir.

Það vantar samt örugglega einhverja leikmenn á lista Dániel Sebestyén en Andri Fannar Baldursson, sem spilar með Bologna í Seríu A og er aðeins átján ára, er vissulega einn af þeim.  Annar er Andri Lucas Guðjohnsen sem er að spila með unglingaliðum Real Madrid.

Hver veit nema að þeir og fleiri detti inn á öðrum lista hjá Sebestyén í framtíðinni. Það lítur aftur á móti út fyrir það að framtíðin sé björt.

Núverandi ástand og færri erlendir leikmenn í Pepsi Max deildinni í sumar ætti að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að slá í gegn á þessu tímabili sem gæti skilað þjóðinni öflugri leikmönnum í næstu framtíð.

En aftur að þessum sex strákum sem Dániel Sebestyén var hrifnastur af.

Jón Dagur Þorsteinsson spilar með danska liðinu AGF og er kantmaður. Hann fær hrós fyrir sendingar, að klára færin sín, tækni og ákvörðunartöku.

Willum Þór Willumsson er miðjumaður hjá BATE í Hvíta-Rússlandi en hans styrkleiki eru líkamlegur styrkur, að vera öflugur í loftinu, tæklingar og staðsetningar.

Kolbeinn Birgir Finnsson er hjá þýska liðinu Borussia Dortmund II en hann er öflugur í fyrigjöfum og tæklingum en er líka með góðan hraða og staðsetningar.

Danijel Dejan Djuric er sóknarmaður hjá danska félaginu Midtjylland en hann fær hrós fyrir skotin sín, að vera öflugur að rekja boltann, að hreyfa sig vel án bolta og fyrir tækni.

Ísak Bergmann Jóhannesson er miðjumaður hjá sænska félaginu Norrköping en hans styrkleiki eru góð yfirsýn, sendingar, tækni og að taka föst leikatriði.

Valgeir Valgeirsson er eini Pepsi Max leikmaðurinn á listanum en hann er kantmaður hjá HK. Valgeir fær hrós fyrir tæklingar sína, vinnuframlagið, skotin og þá er hann góður í að sjá hlutina fyrir áður en þeir gerast.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.