Innlent

Hand­tekin á ferðinni grunuð um inn­brot í Grafar­vogi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn er jafnframt grunaður um brot á vopnalögum.
Maðurinn er jafnframt grunaður um brot á vopnalögum. Vísir/vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók karl og konu í bíl í Grafarvogi um kvöldmatarleytið í gær, grunuð um innbrot og þjófnað. Í dagbók lögreglu segir að parið sé grunað um að hafa brotist inn í nokkrar geymslur í fjölbýlishúsi í hverfinu og stolið verðmætum.

Konan, sem ók bílnum þegar lögregla handtók hana og manninn, er jafnframt grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna og maðurinn um eignaspjöll, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Hann var vistaður sökum ástands og fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þá varð umferðaróhapp á gatnamótum Sæbrautar og Kirkjusands á sjöunda tímanum í gær. Sá sem olli óhappinu er grunaður um að hafa ekið yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi. Báðar bifreiðar voru dregnar af vettvangi.

Lögregla hafði afskipti af manni í Laugardalnum á fimmta tímanum í nótt vegna gruns um brot á vopnalögum. Ekki eru frekari upplýsingar veittar um málið í dagbók lögreglu.

Þá var tilkynnt um innbrot í Hafnarfirði á tíunda tímanum þar sem farið hafði verið inn um opinn glugga og verðmætum og lyfjum stolið. Lögreglu barst svo tilkynning um tvo menn stela gaskút af svölum íbúðarhúss í Mosfellsbæ á fjórða tímanum í nótt. Ekki er greint frekar frá málinu í dagbók lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×