Fótbolti

Segir Heimi hafa gert mistök með liðsvalinu gegn Nígeríu: „Veit ekki hvort þetta var vanmat“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári í leiknum gegn Nígeríu í Volgograd á HM 2018.
Kári í leiknum gegn Nígeríu í Volgograd á HM 2018. vísir/vilhelm

Kári Árnason segir að Heimir Hallgrímsson hafi gert mistök með liðsvali sínu fyrir leikinn gegn Nígeríu á HM 2018. Þetta kom fram í hlaðvarpinu Draumaliðið þar sem Kári ræddi við Jóhann Skúla Jónsson.

Sem frægt er gerði Ísland 1-1 jafntefli við Argentínu í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi. Emil Hallfreðsson lék þá afar vel á miðjunni með Aroni Einari Gunnarssyni og Gylfa Þór Sigurðssyni. Emil var hins vegar tekinn út úr byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Nígeríumönnum og í hans stað kom framherjinn Jón Daði Böðvarsson.

„Það eru taktískir hlutir sem maður pirrar sig á svona eftir á. Gylfi og Aron voru tæpir og ekki í sínu besta formi. Við spiluðum með fjögurra manna miðju á móti gríðarlega líkamlegu sterku og hraustu liði Nígeríu,“ sagði Kári.

„Ég veit ekki hvort það var vanmat en eigum við bara að keyra yfir Nígeríu? Það gekk vel með fimm manna miðju gegn Argentínu og vitandi að við vorum að fara spila á móti svona líkamlega öflugu liði, að þétta ekki miðjuna.“

Staðan í hálfleik var markalaus en í seinni hálfleik virtust Íslendingar sprungnir og Nígeríumenn skoruðu tvö mörk.

„Það tekur rosalega mikið á að spila svona, á móti þremur miðjumönnum. Þetta opnaðist allt,“ sagði Kári.

Ahmed Musa skoraði bæði mörk Nígeríu gegn Íslandi, það fyrra á 49. mínútu og það síðara stundarfjórðungi fyrir leikslok. Íslendingar fengu gullið tækifæri til að minnka muninn en Gylfi skaut í slá úr vítaspyrnu á 83. mínútu.

Ísland féll svo úr leik á HM eftir 2-1 tap fyrir Króatíu í lokaleik sínum í D-riðli. Íslendingar enduðu í neðsta sæti hans með eitt stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×