Fótbolti

Sara Björk: Stundum svona karakterleysi sem er kannski ekki eitthvað sem einkennir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir vill sjá betri leik hjá íslenska liðinu í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir vill sjá betri leik hjá íslenska liðinu í dag. Skjámynd/Twitter/@footballiceland
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, vill sjá betri frammistöðu og sterkari karkater í sínum stelpum þegar íslenska liðið mætir Úkraínu í dag í lokaleiknum á æfingamótinu á Spáni.

„Þrátt fyrir tap í seinasta leik þá fannst mér frammistaðan betri en í fyrsta leiknum þrátt fyrir að við höfum unnið þann leik. Yfir höfuð er þá er margt sem við getum unnið í og bætt, “ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir í viðtali á samfélagsmiðlum Knattspyrnusamband Íslands.

Ísland vann 1-0 sigur á Norður Írlandi í fyrsta leik en tapaði 1-0 fyrir Skotum í síðast leik. Lokaleikurinn er á móti Úkraínu sem tapaði 3-0 á móti Skotlandi en vann síðan 4-0 sigur á Norður Írum í síðasta leik.

„Við höfum spilað við Úkraínu áður og þær eru með fínt lið. Ég held að það sé mikilvægast og við séum fyrst og fremst að einbeita okkur að okkur sjálfum og ná góðri frammistöðu hjá okkur, “ sagði Sara Björk.

Það má samt heyra á landsliðsfyrirliðanum að hún er ekki nógu sátt með leikina á Pinatar mótinu til þessa. Hvað þarf liðið að laga í leiknum í dag.

„Ég myndi segja að halda aðeins betur í boltann því það er eitthvað sem við erum ekki búnar að gera nógu vel. Ákveðin pressumóment og stundum svona karakterleysi sem er kannski ekki eitthvað sem einkennir okkur. Við þurfum að fá upp okkar gildi og það sem einkennir okkur sem lið. Þá getum við vonnandi sótt sigur, “ sagði Sara Björk eins og sjá má hér fyrir neðan.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×