Fótbolti

Kallaði Hudson-Odoi fífl og vill setja hann í bann eftir handtökuna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hudson-Odoi er búinn að koma sér í klandur.
Hudson-Odoi er búinn að koma sér í klandur. vísir/getty

Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan vandaði Callum Hudson-Odoi ekki kveðjurnar á Twitter í gær en vængmaður Chelsea var handtekinn á sunnudagskvöldið eftir að fyrirsæta sem hafði komið í heimsókn til Hudson-Odoi var flutt burt í sjúkrabíl.

Fyrirsætan var flutt á sjúkrahús eftir heimsóknina til Hudson-Odoi eftir að lögreglan var kölluð að húsi Chelsea-mannsins í Lundúnum. Hudson-Odoi var færður í fangageymslur af lögreglunni en var svo sleppt að nýju. Chelsea hefur neitað að tjá sig um málið.

Piers Morgan, sem stýrir þættinum Good Morning Britain á ITV, hefur ekki verið þekktur að liggja á skoðunum sínum og vandaði ekki enska knattspyrnumanninum kveðjurnar í morgun. Hann kallaði hann meðal annars fífl og vildi setja hann í bann.

„Þessi fífl sverta ósanngjarnt mannorð knattspyrnumanna og gera grín að “öryggi fyrst” plani þeirra sem vinna að því að fá ensku úrvalsdeildina af stað á ný. Það ætti að segja við þá að ef þeir brjóta reglurnar eins og þessi, þá verða þeir í banni ef fótboltinn fer aftur af stað,“ sagði Morgan og vitnaði í tíst um handtökuna á Hudson-Odoi.

Hann var einn af þeim fyrstu knattspyrnumönnum á Englandi sem greindist með kórónuveiruna. Hann greindist í mars en sagði svo frá því í apríl að hann hefði náð sér að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×