Erlent

Rambóleikarinn Brian Dennehy látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Dennehy (t.v.) með leikskáldinu Arthur MIller þegar sá síðarnefndi hlaut verðlaun fyrir ævistarf sitt á Tony-verðlaunahátíðinni í New York árið 1999.
Dennehy (t.v.) með leikskáldinu Arthur MIller þegar sá síðarnefndi hlaut verðlaun fyrir ævistarf sitt á Tony-verðlaunahátíðinni í New York árið 1999. AP/Kathy Willens

Brian Dennehy, bandaríski leikarinn sem hlaut meðal annars tvenn Tony-verðlaun á ferlinum, er látinn, 81 árs að aldri. Dennehy var einna þekktastur fyrir hlutverk sín í fyrstu Rambómyndinni, „Cocoon“ og „Tommy boy“.

Dóttir leikarans, Elizabeth Dennehy, staðfesti andlát hans á Twitter í dag. Sagði hún föður sinn hafa andast af „náttúrulegum orsökum“ og andlát hans tengist ekki kórónuveirufaraldrinum, að því er kemur fram í frétt Variety.

Dennehy hlaut fyrri Tony-verðlaun sín fyrir túlkun sína á persónu Willy Loman í leikritinu „Sölumaður deyr“ eftir Arthur Miller árið 1999. Hann bætti öðrum verðlaunum í safnið árið 2003, þá fyrir hlutverk James Tyrone í endurgerð af leikverkinu „Long Day‘s Journey into Night“.

Leikarinn kom einnig fram í sjónvarpsþáttum og myndum, þar á meðal „Kojak“ og „MASH“. Einna þekktastur var Dennehy líklega fyrir hlutverk Teasle, lögreglustjóra í smábæ og höfuðandstæðing Rambó sem Sylvester Stallone túlkaði í kvikmyndinni „First Blood“ árið 1982.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×