Innlent

Enginn veikur um borð í fyrsta skemmtiferðaskipi ársins

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Þetta er ekki skemmtiferðaskipið sem um ræðir, það er aðeins stærra.
Þetta er ekki skemmtiferðaskipið sem um ræðir, það er aðeins stærra. Vísir/Vilhelm

Von er á fyrsta skemmtiferðaskipi ársins til Reykjavíkur í fyrramálið. Það er farþegaskipið Magellan sem tekur tæplega fimmtán hundruð farþega. Skipið leggst að Skarfabakka um klukkan sjö. Skipið mun hafa viðveru hér á landi í tvo daga.

Vegna kórónuveirunnar sem breiðist hratt út um heiminn þurfa öll skip sem koma til landsins erlendis frá að veita Landhelgisgæslunni sérstaka heilbrigðisyfirlýsingu vegna kórónuveirunnar áður en þau fá heimild til að koma til hafnar. Undir venjulegum kringumstæðum ber skipum að senda Landhelgisgæslunni almenna heilbrigðisyfirlýsingu sem og aðrar upplýsingar.

Vegna aðstæðna nú ber skipstjórum og skipslæknum, ef þeir eru um borð, að fylla út sérstakt eyðublað sem getur gefið upplýsingar um COVID-19 smit. Skipum verður ekki hleypt til hafnar nema eyðublaðið berist Landhelgisgæslunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hefur skipstjóri Magellan skilað slíkri heilbrigðisyfirlýsingu án athugasemda um veikindi um borð. Skipið leggst því að höfn í Reykjavík.

Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar kemur fram að vakni grunur um sýkingu af völdum COVID-19 um borð í skipi, tilkynnir Landhelgisgæslan málið til sóttvarnalæknis. Í slíkum tilfellum hafa sóttvarnalæknir, lögregla, Landhelgisgæslan, tollgæsla, hafnaryfirvöld hluteigandi hafnar, Samgöngustofa og skipstjóri samráð sín á milli um að hleypa farþegum ekki frá borði auk þess sem skipinu verður ekki heimilt að koma að bryggju á meðan greining fer fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×