Erlent

Blaðamaður myrtur í Mexíkó

Sylvía Hall skrifar
Mexíkó er álitið eitt hættulegasta land heimsins fyrir blaðamenn. Myndin er frá mótmælum árið 2017.
Mexíkó er álitið eitt hættulegasta land heimsins fyrir blaðamenn. Myndin er frá mótmælum árið 2017. Vísir/EPA

Blaðamaðurinn Jorge Armenta var myrtur í árás í norðurhluta Mexíkó samkvæmt yfirvöldum þar í landi. Armenta hafði fengið vernd vegna líflátshótanna í sinn garð, en hann stýrði miðlinum Medios Obson í borginni Ciudad Obregon.

Lögreglumaður féll einnig í árásinni, en samtökin Blaðamenn án landamæra hyggjast rannsaka málið og kanna hvers konar vernd yfirvöld höfðu veitt honum. Samtökin skilgreina Mexíkó sem hættulegasta landið fyrir blaðamenn utan stríðssvæða og eru landið í 143. sæti yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum af 180 löndum.

Armenta er þriðji blðamaðurinn sem er myrtur í Mexíkó í ár. Lík blaðamannsins Victor Fernando Alvarez fannst í borginni Acapulco þann 11. apríl eftir að hafa horfið rúmri viku áður og í marsmánuði var Maria Elena Ferral skotin til bana þegar hún var að fara í bíl sinn. Yfir 140 blaðamenn hafa verið myrtir í Mexíkó frá árinu 2000.

Forseti Mexíkó, Andrés Manuel López Obrador hét því að binda endi á morð á blaðamönnum en hefur verið gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi í þeim efnum. Þær yfirlýsingar sem hann hafi sett fram og aðgerðir stjórnvalda í þeim efnum séu aðeins táknrænar en hafi ekki skilað árangri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×