Fótbolti

Spennan vex hjá Willum sem komst á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Willum Þór Willumsson er á toppnum í Hvíta-Rússlandi.
Willum Þór Willumsson er á toppnum í Hvíta-Rússlandi.

Willum Þór Willumsson spilaði allan leikinn fyrir BATE Borisov þegar liðið vann Slutsk í dag og kom sér á toppinn í hvítrússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Ekkert hlé hefur verið gert á keppni í Hvíta-Rússlandi þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn og Willum því þar til í dag verið eini íslenski fótboltamaðurinn sem spilað hefur getað fótbolta á atvinnumannastigi. Hann gat fagnað 3-0 sigri í toppslagnum við Slutsk í dag þar sem mörk heimamanna í BATE komu á 4., 24. og 70. mínútu.

Eftir níu umferðir er BATE með eins stigs forskot á toppi deildarinnar á næstu tvö lið Torpedo Zhodino og Energetik-BGU. Slutsk er svo í 4. sæti með 16 stig.

BATE hefur unnið sex deildarleiki í röð auk þess að komast í bikarúrslitaleikinn sem fram fer 24. maí. Það er því spennandi vika fram undan hjá Willum en BATE mætir meisturum Dinamo Brest á miðvikudaginn í deildinni og svo aftur í bikarúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×