Innlent

Nýtt spálíkan gerir ráð fyrir að toppi faraldursins sé náð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir Covid-19.
Frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir Covid-19. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt nýju spálíkani Háskóla Íslands, sem gefið var út í dag, er toppinum í faraldri kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19 náð hér á landi.

Líkanið gerir ráð fyrir því að á meðan „þessi bylgja faraldursins gengur yfir,“ eins og það er orðað, muni rúmlega 1700 manns greinast með Covid-19. Svartsýnni spá gerir þó ráð fyrir allt að 2100 smitum. Staðfest smit eru nú 1720 samkvæmt covid.is.

Þá er gert ráð fyrir að fjöldi greindra smita hafi náð hámarki sínu í fyrstu viku aprílmánaðar.

Gert er ráð fyrir að á meðan þessi bylgja faraldursins gengur yfir muni 110 manns þarfnast sjúkrahúsinnlagnar, en svartsýnni spá gerir ráð fyrir 150 innlögnum. Líkanið gerir ráð fyrir mestu álagi á heilbrigðiskerfið nú um miðjan apríl, eða um 60 inniliggjandi sjúklingum á sama tíma. Svartsýnni spá setur þá tölu upp í 90.

Þá er gert ráð fyrir að á þeim tíma sem faraldurinn gengur yfir verði uppsafnaðar gjörgæsluinnlagnir 24. Svartsýnni spá, sem hingað til hefur verið nær raunverulegum tölum um innlagnir á gjörgæslu, gerir ráð fyrir um 35 slíkum innlögnum.

Hér má nálgast spálíkan Háskóla Íslands í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×