Innlent

Vonast til að geta haldið Þjóðhátíð á venjulegum tíma en mögulega með breyttu sniði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) og Þjóðhátíðarnefnd ætla ekki að hætta undirbúningi við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem alla jafna fer fram fyrstu helgina í ágúst á hverju ári. Ráðstafanir verða nú gerðar svo hægt verði að halda hátíðina í breyttri mynd, ef á þarf að halda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herði Orra Grettissyni, framkvæmdastjóra ÍBV, fyrir hönd ÍBV og Þjóðhátíðarnefndar. Þar kemur fram að Þjóðhátíðarnefnd hafi, ásamt fjölmörgum sjálfboðaliðum, unnið hörðum höndum að því að halda Þjóðhátíð í Herjólfsdal um verslunarmannahelgina.

Fram kemur í minnisblaði sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra að lagt sé til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki tvö þúsund manns, að minnsta kosti út ágúst. Yrði það samþykkt af ráðherra myndi það varpa miklum óvissuskugga á Þjóðhátíðarhöld í ár, þar sem áætlað er að hátt í tuttugu þúsund manns sæki hátíðina á ári hverju.

„Í dag er enn óljóst hversu lengi samkomubann og fjöldatakmarkanir munu gilda en í ljósi þeirra upplýsinga sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt mun þessi vinna við undirbúning hátíðarinnar 2020 halda áfram, auk vinnu við ráðstafanir komi til þess að halda verði hátíðina í breyttri mynd. Eins og staðan er í dag vonumst við þó til að geta haldið Þjóðhátíð fyrstu helgina í ágúst,“ segir í tilkynningu ÍBV og Þjóðhátíðarnefndar.

Hörður Orri Grettisson er framkvæmdastjóri ÍBV.Aðsend

Þó er áréttað að öryggi gesta hátíðarinnar, listamanna, starfsmanna og sjálfboðaliða sé í algjörum forgangi við undirbúning hátíðarinnar. Því verði unnið náið með Almannavörnum og farið að þeirra tilmælum í einu og öllu. Gestum verði haldið upplýstum eftir því sem upplýsingar, sem kunni að hafa áhrif á hátíðina, berast.

Þá eru allir hvattir til að hlýða skilaboðum stjórnvalda, þvo sér um hendur, halda sig heima, virða fjarlægðar- og samkomutakmarkanir og hugsa vel um sjálfa sig og náungann.

„Þrátt fyrir böl og alheimsstríð, þá verður haldin Þjóðhátíð!“ segir í lok tilkynningarinnar sem Hörður Orri skrifar undir.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.