Erlent

Yfirvöld Bretlands sökuð um aðgerðarleysi varðandi eldri borgara

Samúel Karl Ólason skrifar
Í heildina eru 12.107 látnir vegna sjúkdómsins í Bretlandi og þar af 778 á undanförnum sólarhringi, samkvæmt opinberum tölum yfirvalda.
Í heildina eru 12.107 látnir vegna sjúkdómsins í Bretlandi og þar af 778 á undanförnum sólarhringi, samkvæmt opinberum tölum yfirvalda. EPA/Will Oliver

Yfirvöld Bretlands eru sögð hunsa dauðsföll eldri borgara vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur. Opinberar tölur ríkisins endurspegla eingöngu hve margir deyja á sjúkrahúsum en ekki hve margir deyja á dvalarheimilum eða eigin heimilum.

Theresa Coffey, atvinnu- og eftirlaunaráðherra Bretlands, segir tölurnar frá sjúkrahúsum vera nákvæmar og auðunnar.

Í heildina eru 12.107 látnir vegna sjúkdómsins og þar af 778 á undanförnum sólarhring, samkvæmt opinberum tölum yfirvalda. Alls hafa minnst 93.873 greinst með sjúkdóminn.

Í frétt BBC segir að Hagstofa Bretlands hafi tekið saman dauðsföll í Englandi og Wales og þar með dauðsföll á dvalarheimilum, heimilum og öðrum stöðum sem hægt sé að tengja við Covid-19. Þær tölur, sem ná fram til þriðja apríl, sýna töluverða aukningu við opinberar tölur yfirvalda.

Fyrirtækið sem rekur stærstan hluta dvalarheimila í Bretlandi segir kórónuveiruna hafa greinst á tveimur þriðju af heimilum fyrirtækisins. Það samsvarar 232 af 329 dvalarheimilum. Yfirvöld Bretlands segja veiruna hafa greinst á rúmlega tvö þúsund dvalarheimilum, af um 11.300.

Réttindasamtök eldri borgara í Bretlandi hafa kallað eftir aðgerðum til verndar eldri borgara. Haldnir verði daglegir upplýsingafundir um stöðu mála á dvalarheimilum og tölur yfir dauðsföll þar teknar saman. Þar að auki verði séð til þess að skimun verði aukin og starfsmenn dvalarheimila fái þann búnað sem þarf til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×