Enski boltinn

Sheikinn reyndi að kaupa Liverpool áður en hann keypti Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hefði Pep Guardiola þá orðið knattspyrnustjóri Liverpool frekar en Jürgen Klopp? Það fáum við aldrei að vita.
Hefði Pep Guardiola þá orðið knattspyrnustjóri Liverpool frekar en Jürgen Klopp? Það fáum við aldrei að vita. Samsett/Getty

Arabísku eigendurnir hjá Manchester City gerbreyttu öllu hjá félaginu þegar þeir keyptu það fyrir tólf árum og gerðu það í framhaldinu að einu besta fótboltaliði heims. Manchester City var hins vegar ekki fyrsti kostur.

Graeme Souness, fyrrum fyrirliði og knattspyrnustjóri Liverpool, sagði frá því á Sky Sports að núverandi eigendur Manchester City, með Sheikh Mansour í fararbroddi, hafi á sínum tíma reynt að kaupa Liverpool áður en þeir ákváðu síðan að kaupa Manchester City.

Fjárfestahópurinn frá Abu Dhabi reyndi allt sem þeir gátu til að eignast Liverpool en Amanda Staveley, eftirsóttur tengiliður á milli enska og arabíska viðskiptaheimanna, sagði við Souness á sínum tíma að erfið samskipti við þáverandi eigendur félagsins, Tom Hicks og George Gillett, hafi orðið til þess að ekkert varð úr þessum kaupum.

„Ég fór með fjölskyldunni til Dúbaí fyrir tólf eða þrettán árum síðan og kynntist Amöndu á hótelinu. Hún sagðist vera stuðningsmaður Liverpool og talaði um að hafa hjálpað til við eigendaskipti Manchester City," sagði Graeme Souness á Sky Sports.

„Þá spurði ég hana hvers vegna hún hafði hjálpað til við yfirtöku á Man City frekar en Liverpool," sagði Souness sem vann ellefu stóra titla sem leikmaður Liverpool þar af vann hann ensku deildina fimm sinnum og Evrópukeppni meistaraliða þrisvar.

„Hún svaraði: Ég reyndi og reyndi en það var alltof erfitt að eiga við Gillette og Hicks," sagði Souness. Graeme Souness varð líka knattspyrnustjóri Liverpool frá 1991 til 1994 og gerði félagið að enskum bikameisturum árið 1992.

Amanda Staveley hjálpaði Sheikh Mansour og félögum að eignast Manchester City árið 2018 og er nú tólf árum síðar að hjálpa öðrum arabískum fjárfestum að eignast Newcastle United.

Bandaríkjamennirnir Tom Hicks og George N. Gillett Jr. höfðu eignast Liverpool ári fyrr en vöktu enga lukku þessi þrjú ár sem þeir áttu félgið. Þeir seldu það á endaum til núverandi eigenda, New England Sports Ventures, í október 2010.

Manchester City vann Englandmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 44 ár vorið 2012 og hefur unnið hann þrisvar til viðbótar á síðustu sex árum auk þess að vinna enska bikarinn tvisvar sinnum og enska deildabikarinn fimm sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×