Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, staðfesti á blaðamannafundi fyrir leik Real gegn Barcelona um helgina að velski kantmaðurinn Gareth Bale verði í leikmannahópnum um helgina.
Real Madrid er með þriggja stiga forskot á Börsunga á toppi deildarinnar ásamt því að eiga leik til góða fyrir leikinn á Santiago Bernabeu þegar stutt er eftir af tímabilinu.
Takist Madrídingum að vinna á sunnudaginn eru þeir komnir í ansi góða stöðu heima fyrir til að vinna spænskan meistaratitilinn.
Hefur Real aðeins einu sinni orðið spænskur meistari undanfarin níu ár.
Bale missti af leiknum gegn Bayern Munchen í vikunni sem og leiknum gegn Sporting Gijon um síðustu helgi eftir að hafa meiðst í fyrri leiknum gegn Bayern en Zidane staðfesti að hann yrði í leikmannahópnum gegn Barcelona.
Bale klár í slaginn gegn Barcelona
Kristinn Páll Teitsson skrifar
