Innlent

Skemmdar­verk unnin á vin­sælu vegglista­verki í Vestur­bæ

Sylvía Hall skrifar
Vegglistaverkið hefur fengið að njóta sín undanfarna mánuði. Nú hefur verið málað yfir Hallgrímskirkju.
Vegglistaverkið hefur fengið að njóta sín undanfarna mánuði. Nú hefur verið málað yfir Hallgrímskirkju. Vísir/Kjartan Atli

Íbúar í Vesturbæ eru heldur súrir eftir að málað var yfir hluta af vegglistaverki á grindverki við Hofsvallagötu sem hefur vakið mikla lukku síðustu mánuði. Listaverkið er eftir listamanninn Joan Pictures og er upp úr tölvuleiknum sívinsæla Super Mario.

Það er ljóst að listaverkið er í miklum metum hjá íbúum hverfisins, enda voru margir furðulostnir þegar greint var frá því í íbúahóp á Facebook að verið væri að mála yfir listaverkið.

Vesturbæingar þurfa þó ekki að hafa miklar áhyggjur þar sem Ólöf Magnúsdóttir eigandi grindverksins segir að búið sé að hafa samband við listamanninn og hann ætli að laga þetta.

Málað var yfir Hallgrímskirkju með grænni málningu.Facebook

Það sé þó óljóst hvað slík lagfæring muni kosta, en miðað við viðbrögðin sé ekki ólíklegt að einhverjir muni vilja hjálpa til. Slík tillaga hefur komið fram í íbúahópnum við góðar undirtektir.

„Það er ótrúlega gaman að sjá hvað fólkið í hverfinu hefur tekið þessu listaverki vel, sérstaklega eftir að málað var yfir Hallgrímskirkjuna, þá hefur fólk sýnt ótrúlega mikla velvild.“

Hún segir verkið hingað til hafa fengið að vera í friði og það sé líklega vitnisburður um vinsældir þess. Það lífgi upp á umhverfið og geri það aðeins fjölbreyttara.

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu og hefur hún rætt við konuna sem málaði yfir Hallgrímskirkju. Ólöf ætlar ekki að kæra málið en vonar að þetta verði þó til þess að verkið fái að vera í friði héðan í frá. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×