Innlent

Ólafur Ragnar segir ræðu Johnsons sögulega

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ólafur Ragnar telur að ræða Johnson verði sú merkilegasta frá tímum kórónuveirunnar þegar upp er staðið.
Ólafur Ragnar telur að ræða Johnson verði sú merkilegasta frá tímum kórónuveirunnar þegar upp er staðið. Vísir/Vilhelm/Samsett

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, birti í gær færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann deildi ræðu Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þar sem hann þakkaði heilbrigðisstarfsfólki í Bretlandi og bresku þjóðinni allri fyrir framlag sitt í átakinu til að kveða niður kórónuveiruna sem valdið getur Covid-19. Boris var í gær útskrifaður af spítala þar sem hann lá um tíma á gjörgæslu með Covid-19. Ræðuna birti Johnson á Twitter í gær.

„Þessi ræða fer á spjöld sögunnar sem sú merkilegasta þessara kórónuveirutíma. Hlustið,“ skrifar Ólafur Ragnar.

„Ekki bara einu sinni, heldur aftur.“

Í ræðu sinni þakkar Johnson heilbrigðisstarfsfólki Bretlands fyrir framlag sitt í baráttunni við kórónuveiruna. Eins þakkar hann allri bresku þjóðinni fyrir að fylgja reglum um samkomutakmarkanir og inniveru, sérstaklega þar sem hann segist vita að blíðviðri og náttúrufegurð utan veggja heimilisins kunni að freista margra. Hér að neðan má sjá ræðu forsætisráðherrans og tíst Ólafs Ragnars.

Í ræðunni segir Johnson einnig að hann telji að þrautir þeirra sem nú halda sig heima og láta það vera að hitta vini og fjölskyldu til þess að varna útbreiðslu veirunnar séu þess virði.

„Vegna þess að þó við syrgjum á hverjum degi þau sem tekin eru frá okkur í stórum stíl og þó að baráttunni sé hvergi nærri lokið, erum við nú að ná árangri í þessum ótrúlega bardaga á landsvísu gegn kórónuveirunni. Bardaga sem við völdum ekki að berjast, við óvin sem við enn skiljum ekki almennilega.“

Í ræðunni þakkar Boris einnig persónulega fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem hann fékk meðan hann lá á spítala. Hann tekur þar sérstaklega fram að tveir hjúkrunarfræðingar, Jenny frá Nýja-Sjálandi og Luis frá Portugal, hafi verið honum við hlið þá 48 tíma sem útlitið var hvað svartast fyrir forsætisráðherrann, og hefði getað farið á hvorn veginn sem væri. Fyrir það verði hann ævinlega þakklátur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×