Innlent

Sau­tján tonn af lækninga­búnaði komin til landsins frá Kína

Sylvía Hall skrifar
Vélin affermd á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Vélin affermd á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Vísir/Jóhann K.

Vél Icelandair sem flutti sautján tonn af lækningabúnaði frá Sjanghæ lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan 18:30 í kvöld. Búnaðurinn var pantaður fyrir nokkru síðan þegar ljóst var í hvað stefndi vegna kórónuveirufaraldursins en um er að ræða samvinnuverkefni heilbrigðisyfirvalda, almannavarna, Icelandair og utanríkisráðuneytisins.

Sjá einnig: Icelandair sækir sau­tján tonn af lækninga­vörum til Kína

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ferðina hafa gengið vel en vélin lagði af stað til Sjanghæ í gærmorgun. Flugið út hafi tekið rúmlega tólf og hálfan tíma og svo hafi hún stoppað þar í sjö tíma á meðan verið var að hlaða vélina.

Flugið til baka tók um þrettán klukkustundir.Flightradar

Flugið aftur heim til Íslands tók svo um þrettán klukkustundir og lenti vélin líkt og fyrr sagði klukkan 18:30 á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Flogið var í beinum legg fram og til baka.

Á upplýsingafundi almannavarna í fyrradag sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að Landspítalinn muni svo fá lagerinn og dreifa honum ef þörf er á.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra engan skort vera á hlífðarbúnaði hér á landi. Með þessu væri einfaldlega verið að tryggja ábyrgða birgðastöðu svo sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir gætu átt greitt aðgengi að þessum mikilvægu vörum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×