Erlent

Tíundi hver Bandaríkjamaður hefur misst vinnuna

Þórir Guðmundsson skrifar
Götur New York eru nánast auðar og hjól efnahagslífs í Bandaríkjum snúast hægt.
Götur New York eru nánast auðar og hjól efnahagslífs í Bandaríkjum snúast hægt. Mary Altaffer/AP

Tíundi hver vinnufær Bandaríkjamaður hefur misst vinnuna síðan stjórnvöld þar í landi fóru í víðtækar aðgerðir til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar. Alls hafa 16,8 milljónir manna sótt um atvinnuleysisbætur á síðustu þremur vikum, samkvæmt tölum Vinnumálaráðuneytisins í Washington. 

Fleiri hafa ekki verið atvinnulausir í Bandaríkjunum síðan á dögum kreppunnar miklu fyrir um 90 árum. Talið er að atvinnuleysi í apríl kunni að ná 15 prósentum vinnufærra manna.

Óttast er að atvinnulausir kunni að vera enn fleiri í raun því margir sem vilja skrá sig á atvinnuleysisskrá hafa átt í erfiðleikum með að ná í gegn í síma eða skrá sig á vefnum. Í Flórída hafa yfirvöld byrjað að úthluta skráningarformum á pappír af því að skráningarsíður á vefnum hafa kiknað undan álaginu. 

„Þetta er ekki niðursveifla; þetta er Kreppan mikla II,“ sagði Chris Rupkey yfirhagfræðingur MUFG bankans í bréfi til viðskiptavina sinna. 

Mörgum hefur reynst erfitt að fá atvinnuleysisbætur útborgaðar þrátt fyrir að komast á skrá. Í sumum borgum Bandaríkjanna má þúsundir manna í biðröð eftir ókeypis mat, meðal annars í Orlando, San Diego, Pittsburg og Cleveland. 

Bandaríkin eru það land í  heiminum sem er með flest staðfest smit, eða 430.000, sem er nærri þriðjungur smita á heimsvísu. Þau eru nú farin yfir 1,5 milljónir. 

Yfirvöld í New York fylki tilkynntu í dag um 799 dauðsföll úr Covid-19 sjúkdómnum á einum sólarhring. Talan heldur áfram að hækka. Fleiri en 7.000 manns hafa látið lífið úr sjúkdómnum í fylkinu eða næstum helmingur þeirra 15.000 manna sem hafa látið lífið úr honum í Bandaríkjunum öllum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.