Innlent

Fullt af fólki í sumarbústöðum í Bláskógabyggð

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar er mjög hneykslaður á öllu því fólki sem ætlar sér greinilega að vera í sumarbústöðum í sveitarfélaginu yfir páskana. Hann undrast mjög að fólk skuli ekki hlýða tilmælum um að vera heima og ferðast innanhúss um páskana. 

Eitt af stærstu sumarbústaðahverfum landsins er í Bláskógabyggð þar sem um tvö þúsund sumarhúsa eru. Eins og allir vita þá hefur þeim tilmælum verið beint til fólks að það haldi sig heima um páskana vegna kórónuveirunnar en það eru greinilega ekki allir þar því fjölmargir eru í sumarbústöðum í uppsveitum Árnessýslu, ekki síst í Bláskógabyggð.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.Vísir/Magnús Hlynur
„Mér finnst það ábyrgðaleysi að fólk skuli ekki hlýða. Þarna eru tilmæli, það er alheims ástand og fólk á þá að fara eftir tilmælum yfirvalda, annað er algjört ábyrgðarleysi og ég skil í rauninni ekkert í fólki að hlýða þessu ekki.

Ég sé að það er fullt af fólki í sumarbústöðum. Ég tók hér smá rúnt um sveitina í gær og ég sá að það eru bílar fyrir utan nánast öll sumarhús þar sem ég fór um,“ segir Helgi.

Helgi segist vera mjög hneykslaður á því hvernig fólk hagar sér og hunsar öll tilmæli um að vera heima um páskana.

„Já, það er ég og líka upp á það sem þríeykið hefur nefnt ef það verða einhver slys á vegum eða þess háttar, einhver alvarleg bílslys og svona, það má varla á gjörgæsluna bæta þannig að fólk verður að sýna ábyrgð og skynsemi,“ segir Helgi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.