Innlent

Ís­lensk orku­fyrir­tæki selja mengunar­af­láts­bréf

Heimir Már Pétursson skrifar
Íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa upprunavottorð til að sýna fram á að vörur þeirra séu framleiddar með grænni orku.
Íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa upprunavottorð til að sýna fram á að vörur þeirra séu framleiddar með grænni orku. vísir/vilhelm

Opinberlega er uppruni raforku á Íslandi 90 prósent kominn frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku, þótt nær öll orka hér á landi sé framleidd með endurnýjanlegum orkulindum. Undanfarin átta ár hafa íslensk orkufyrirtæki getað selt svokallaðar upprunaábyrgðir eða aflátsbréf á raforku til orkufyrirtækja í Evrópu sem framleiða raforku með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku en ekki með endurnýjanlegum auðlindum.

Þetta þýðir að opinberlega framleiða Íslendingar 55 prósent orku sinnar með jarðefnaeldsneyti eins og kolum og olíu, 34 prósent með kjarnorku en aðiens 11 prósent með endurnýjanlegum hætti, þótt raunin sé að hér sé nánast öll orka framleidd þannig. Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir þau vilja að sölu þessara upprunaábyrgða verði hætt.

Aðeins ellefu prósent af þeirri orku sem Íslendingar framleiða opinberlega er með endurnýjanlegum hætti.vísir

„Þetta er vissulega evrópsk löggjöf sem við innleiðum hér á landi. Hins vegar er þetta valkvætt. Það er að segja að það er val fyrirtækjanna að selja þessar ábyrgðir,“ segir Sigurður.

Þar er stærsti raforkuframleiðandinn Landsvirkjun atkvæðamest með um 900 milljónir í tekjur af sölunni í fyrra og önnur orkufyrirtæki með um 300 milljónir. Í stóra samhenginu segir Sigurður þessar tekjur því ekki mikilvægar en ímynd gæða og hreinleika sé hins vegar verðmæt.

Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri Samtaka Iðnaðarins.vísir/Egill

„Til þess að auka virði þeirra vara sem við framleiðum og auka eftirspurn. Þannig að ávinningurinn er svo sannarlega mikill og það gildir ekki bara um orkusækinn iðnað. Það gildir um allt sem héðan kemur. Hvort sem það er sjávarfang eða ferðaþjónustan eða aðrar útflutningsgreinar,“ segir framkvæmdastjóri SI.

Í dag þurfi öll fyritæki á Íslandi sem noti mikla raforku að kaupa sér upprunavottorð vilji þau tiltaka að afurðir þeirra séu framleiddar með grænni orku.

„Þarna erum við nákvæmlega að tala um samkeppnisforskot Íslands. Með þessum gjörningum er auðvitað verið að grafa undan þessu forskoti okkar. Sem er óskiljanlegt,“ segir Sigurður Hannesson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.