Innlent

Hefur trú á að samningaviðræðum við flugfreyjur sé ekki lokið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segist vongóður um að fulltrúar Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair geti sest að samningaborðinu á nýjan leik, þrátt fyrir að ekki hafi verið boðað til nýs fundar milli aðila eftir að slitnaði upp úr fundi þeirra í gær. Þetta kom fram í viðtali við Boga í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Því að það eru mikil tækifæri til þess að gera breytingar á þessum samningum sem hafa eins og komið hefur fram langa sögu og eru flóknir. Það er hægt að breyta þeim og auka vinnuframlag og framleiðni, en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur fólks. Ég er bjartsýnn á að við setjumst niður aftur og finnum lausn á þessu máli,“ segir Bogi.

Bogi segir það verða að koma í ljós hvort af fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair verði eftir átta daga, hafi samningar við flugfreyjur ekki náðst. Bogi hefur áður sagt að fjárfestar geri kröfu um að langtímasamningar milli Icelandair og starfsmanna félagsins náist.

„Eins og hefur komið fram erum við að fara í þetta útboð á þessum miklu óvissutímum og það er krefjandi að selja nýtt hlutafé í þessari stöðu, þannig að við þurfum að sýna fram á að framtíðin sé björt og ákveðinn fyrirsjáanleika hvað varðar þennan kostnaðarlið hjá okkur, því við eigum að geta haft, í rauninni, stjórn á honum,“ segir Bogi.

Vongóður um að samningar við flugmenn náist

Samninganefndir flugmanna og Icelandair hafa fundað í dag, og gera enn þegar þetta er skrifað. Góður gangur er sagður í viðræðunum.

„Menn sitja og ræða málin núna, þannig að þetta er allavega í gangi, sem er gott. Það er verið að fara yfir hlutina og við erum að reyna að ná saman,“ segir Bogi. Aðspurður segist hann ekki viss hvort samningar náist í kvöld. Hann sé þó vongóður um að aðilar nái saman að endingu.

„Ég er vongóður um að samningar takist, spurning hvort það gerist í kvöld.“


Tengdar fréttir

Launafrost til 2023

Í tillögum sem lagðar voru fram af Icelandair í kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands í gær er farið fram á 18 til 35 prósenta launaskerðingu flugfreyja og flugþjóna hjá félaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×