Tugprósenta munur er á tilboði Icelandair og tilboði flugfreyja í kjaraviðræðum þeirra í milli. Forseti ASÍ segir ljóst verkalýðshreyfingin þurfi að standa í lappirnar svo fyrirtæki komist ekki upp með að nýta sér aðstæðurnar til að keyra niður kjör.
Icelandair rær nú lífróður til að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti. Fyrirtækið hefur sett stefnuna á að ná 29 milljörðum í gegnum hlutafjárútboð til að styrkja stöðu fyrirtækisins fyrir 22. maí. Forstjóri Icelandair sagði í bréfi til starfsmanna að lækka þurfi laun starfsmanna til að laða að fjárfesta.
Flugvirkjafélagið hefur skrifað undir fimm ára samning við Icelandair sem kveður á um skerðingu. Flugfreyjur gerðu Icelandair tilboð sem hljóðaði upp á tilslökun á kjörun. Flugfreyjum barst gagntilboð frá Icelandair í gær. Samkvæmt heimildum býður Icelandair flugfreyjum laun sem eru tugprósentum lægri en tilboð flugfreyja hljóðaði upp á.
Flugfreyjufélag Íslands heyrir undir Alþýðusamband Íslands. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir stöðuna erfiða.
„Það er mjög undarlegt að gera kröfu um langtímasamning þegar það er fullkomin óvissa um það hvernig flugheimurinn mun líta út eftir sex mánuði, en það eru viðræður í gangi,“ segir Drífa.

Hún segir ljóst baráttan fram undan á vinnumarkaði muni snúast um að viðhalda kjarasamningum.
„Það er náttúrulega okkar sem verkalýðshreyfing, skilgreint hlutverk okkar, að standa í lappirnar og verja það að fyrirtæki komist ekki upp með það að keyra niður kjör. Það verður alveg örugglega okkar verkefni á næstu misserum.“
Aðspurð segist Drífa hafa skilning á erfiðri stöðu Icelandair. Hún segir stöðuna þó erfiða víðar en þar.
„Staða Icelandair er mjög erfið, en það á við um Icelandair eins og önnur fyrirtæki, að viðhald þeirra fyrirtækja má ekki byggja á stórfelldri kjaraskerðingu til langs tíma,“ segir Drífa.