Fótbolti

„Myndi í al­vöru ein­hver í­huga að taka David de Gea úr markinu og setja Dean í hans stað?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
David de Gea eftir hörmuleg mistök á Goodison Park í 1-1 jafntefli gegn Everton.
David de Gea eftir hörmuleg mistök á Goodison Park í 1-1 jafntefli gegn Everton. vísir/getty

Peter Schmeichel, fyrrum markvörður Manchester United og danska landsliðsins, segir að félagið eigi að vera ánægt með David de Gea í markinu en Spánverjinn hefur þótt mistækur í marki Rauðu djöflanna á núverandi leiktíð.

Enskir miðlar hafa fjallað um það síðustu vikur og mánuði að United gætu gert breytingar á markmannsstöðunni í sumar. De Gea gæti farið og Dean Henderson, sem er á láni frá United hjá Sheffield United, gæti komið aftur til baka í markið en Henderson hefur spilað vel fyrir nýliðanna.

„Myndi í alvöru einhver íhuga að taka David de Gea úr markinu og setja Dean Henderson í staðinn? Það er enginn vafi á því að Henderson er efnilegur en hann hefur spilað eitt tímabil í úrvalsdeildinni hjá liði sem hefur verið á rosalegu skriði,“ sagði Daninn.

„Henderson þarf að eiga fleiri góð tímabil, eins og hann er að gera núna áður en hann hefur sannað alla um að hann sé rétti maðurinn,“ bætti Schmeichel en hann svaraði spurningum lesenda Daily Express á Instagram.

„Það er mjög mikill munur að vera markmaður númer eitt á Bramall Lane og Old Trafford. Það er mjög mikill munur. Ég hef séð marga leikmenn koma til United með góða dóma og þeir hafa ekki getað staðið undir því. Það er bara því pressan á Old Trafford er öðruvísi. Allt öðruvísi.“

De Gea hefur staðið í markinu frá árinu 2011 og leikið rúmlega 300 leiki fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×