Innlent

Vig­dís stefnir á vara­for­manninn

Atli Ísleifsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir er borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir er borgarfulltrúi Miðflokksins. Vísir/Vilhelm

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík, hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti varaformanns Miðflokksins. Kosning mun fara fram á landsþingi flokksins sem fer fram 28. og 29. mars næstkomandi.

Í tilkynningu frá Vigdísi segir að varaformaður Miðflokksins stýri almennu innra starfi og sé tengiliður stjórnar við flokksfélög og sveitarstjórnarfulltrúa.

„Reynsla mín af þingi og ekki síður í borgarstjórn mun án efa koma til með að styrkja böndin á milli stjórnar flokksins, sveitastjórnarstigsins og grasrótarinnar nái ég kjöri.

Ég vil þakka alla þá hvatningu og stuðning sem ég hef fengið víðs vegar að af landinu til að stíga þetta skref. Ég hef ígrundað málið vel og met það svo að ég geti ekki skorast undan ábyrgð. Jafnframt heiti ég því að vinna af heilindum og dugnaði til að gera hlut Miðflokksins sem mestan í framtíðinni, landi og þjóð til heilla,“ segir Vigdís.

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður er núverandi varaformaður Miðflokksins.

Vigdís segist í samtali við Vísi nú vera fyrst til að lýsa yfir framboði til varaformanns. Enginn eigi neitt í pólitík en að nú telji sig eiga erindi.

Aðspurð hvort hún stefni á endurkomu á þing segist hún ekki útiloka það enda sé hún á besta aldri. Eins og staðan sé nú stefni hún hins vegar á að verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur, en að ekki sé hægt að útiloka neitt í pólitík. Það þekki hún af eigin reynslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×