Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi útgefandi og ritstjóri Fréttablaðsins, hefur fengið neitun frá Ríkisútvarpinu við beiðni sinni um rökstuðning á ráðningu nýs útvarpsstjóra, Stefáns Eiríkssonar. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Margrét Magnúsdóttir, starfandi útvarpsstjóri, segir í svari til Kristínar að vegna stöðu Ríkisútvarpsins sem opinbert hlutafélag starfi stofnunin á sviði einkaréttar. Vísað er í álit umboðsmanns Alþingis frá árinu 2009 og dóms Hæstaréttar frá 2015 þessu til stuðnings.
Kristín og Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og leikhússtjóri, kölluðu báðar eftir rökstuðningi frá Ríkisútvarpinu. Kolbrún var á meðal þeirra þriggja sem komust lengst í umsóknarferlinu en Kristín var á meðal nítján sem fengu eitt viðtal. 41 sótti um starfið en nöfn umsækjenda voru ekki gefin upp.
Sá angi málsins er enn á borði umboðsmanns Alþingis sem hefur lýst efasemdum um að stofnuninni sé heimilt að gefa ekki upp nöfn þeirra sem sóttu um.