Innlent

Áttatíu ár liðin frá hernámi Íslands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

Áttatíu ár eru liðin frá hernámi Breta á Íslandi. Áhugamaður um umsvif erlendra herja segir hernámið hafa gjörbylt landinu og lagt grunninn að nútímavæðingu landsins.

Þann 10. maí árið 1940 steig breskt herlið á land í Reykjavík. Það var upphafið að heilmikilli hersetu hér á landi, út stríðsárin.

„Þetta, má segja, gjörbylti Íslandi þess tíma og lagði grunninn að, ásamt því sem fylgdi í styrjöldinni, nútímavæðingu landsins og velmegun,“ segir Friðþór Eydal, umsvif erlendra herja hér á landi.

Hann segir hernámið hafa gjörbylt Íslandi.

„Ísland var í stríðsbyrjun þrúgað af kreppunni, sem var búin að ríkja allan áratuginn á undan. Skyndilega opnuðust fiskmarkaðir í Bretlandi og íslenskir sjómenn voru ekki í neinni samkeppni á miðunum lengur og þessi fiskmarkaðir greiddu tífalt verð sem verið hafði fyrir stríð. Þetta þurrkaði út allt krepputapið sem varð á sínum tíma.“

Enn má sjá minjar um hernámið um Reykjavíkurborg, sér í lagi í Nauthólsvík.

„Frá Nauthólsvík voru lengi vel gerðir út flugbátar til að fylgjast með skipaferðum og berjast við kafbáta. [Hér voru] gríðarlega mikil umsvif á tímabili og það eimir enn af minjum um þetta, eins og sést vel,“ sagði Friðþór í samtali við fréttastofu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×