Innlent

Al­var­legt ef fyrir­tæki mis­notuðu hluta­star­fa­leiðina

Sylvía Hall skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það rjúfa mikilvæga samstöðu ef fyrirtæki nýttu hlutastarfaleiðina ef ekki var þörf á því.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það rjúfa mikilvæga samstöðu ef fyrirtæki nýttu hlutastarfaleiðina ef ekki var þörf á því. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir hlutastarfaleiðina hafa gert störf öruggari og tryggt framfærslu fólks. Úrræðið hafi heppnast vel, markmiðinu hafi verið náð og fólk hafi upplifað lítið tekjutap þrátt fyrir skert starfshlutfall. Það hafi þó ekki hafa verið í samræmi við markmið laganna að fyrirtæki nýttu sér úrræðið ef ekki var þörf á því.

„Hlutastarfaleiðin var úrræði stjórnvalda til að forða uppsögnum hjá fyrirtækjum sem urðu fyrir tekjufalli vegna Covid-19. Það var enginn munur gerður á litlum eða stórum fyrirtækjum, við vildum einfaldlega hvetja fyrirtæki til að viðhalda ráðningarsambandinu ef það gat verið valkostur að lækka starfshlutfall tímabundið,“ skrifar Bjarni í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni.

Greiðslurnar hafi þannig farið til starfsfólks en ekki fyrirtækjanna. Fyrirtækin gátu ekki nýtt starfskrafta fólks nema að því marki sem þau greiddu sjálf laun. Það sé þó alvarlegt ef fyrirtæki hafi misnotað úrræðið.

„Ef dæmi eru um að fyrirtæki sem ekki urðu fyrir tekjufalli eða dreifðu peningum út til eigenda sinna á sama tíma og þau nýttu úrræðið finnst mér alveg ljóst að það var ekki í samræmi við tilgang laganna. Við þurfum að finna þau tilvik með eftirliti, en þau eru örugglega undantekning,“ segir Bjarni og bætir við að það sé ekki lýsandi fyrir aðgerðirnar.

„Slíkar undantekningar rjúfa mikilvæga samstöðu.“

Kæmi á óvart ef ekki mætti birta lista yfir fyrirtækin 

Bjarni segir persónuverndarlög skera úr um hvort heimilt sé að birta lista yfir þau fyrirtæki sem nýttu sér hlutastarfaleiðina og gerðu samninga um lægra starfshlutfall. Niðurstaða í því máli verði ljós á næstu dögum en það kæmi honum á óvart ef það væri óheimilt.

„Það kæmi á óvart að ekki mætti birta nöfn fyrirtækja sem tóku þátt í þessari aðgerð. Ég heyri vangaveltur um að eitt kunni að eiga við stór fyrirtæki annað um lítil. Sjáum til. Hver sem niðurstaðan verður vil ég segja að í mínum huga snýst þetta einfaldlega um gagnsæi.“

Hann segir að þau fyrirtæki sem gerðu samninga um lægra starfshlutfall hafi breytt rétt með því að segja ekki upp fólki. Stjórnvöld hafi verið að biðja atvinnurekendur um að bíða og segja fólki ekki upp ef það væri möguleiki.

„Ég sé þess vegna ekki hvers vegna þetta ætti að vera viðkvæmt mál frá sjónarhóli fyrirtækjanna. Það sem kann að hafa áhrif hér er almenningsálitið. Og því er aftur oft og tíðum stjórnað af fjölmiðlaumfjöllun,“ segir Bjarni.

Hann vonar að úrræðið fái ekki á sig óorð vegna þeirra sem nýttu úrræðið að óþörfu. Þó umfjöllun snúi oft að þeim sem gerðu rangt séu mörg þúsund sem hafi notið góðs af úrræðinu og margar fjölskyldur hafi komist í skjól vegna þess.

„Hlutastarfaleiðin hafði mikla þýðingu þegar mest þurfti á að halda: Á meðan við beittum ströngum úrræðum eins og samkomubanni sem olli lokun margra fyrirtækja og hruni í tekjum annarra sem reyndu að hafa opið,“ segir Bjarni og bætir við að hlutastarfaleiðin verði framlengd. Hún hafi heppnast vel og sé táknræn fyrir þá samstöðu sem sé nauðsynleg á tímum sem þessum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.