Innlent

Vill að listi yfir fyrir­tæki í hluta­bóta­leið verði birtur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Vísir/Friðrik Þór

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vill að Vinnumálastofnun birti lista yfir fyrirtæki sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu. Stofnunin greindi frá því í yfirlýsingu í dag að hún hefði ekki heimild til að afhenda né birta listann.

„Málið er einfalt það á að birta þennan lista! Það er ein af forsendunum fyrir aðgerðunum sem eru til að vernda störf á fordæmalausum tímum,“ skrifar Guðlaugur Þór í færslu á Facebook-síðu sinni nú í kvöld, og vísar í frétt sem skrifuð er um umrædda yfirlýsingu Vinnumálastofnunar.

Stofnunin segir í yfirlýsingunni að afstaða sín byggi á lögum um persónuvernd.

„[…] því það liggur fyrir að ef birtur er listi fyrirtækjanna þá er auðveld leið að finna út nöfn þeirra sem fengið hafa greiddar atvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli. Það er óumdeilt, að rík skylda hvílir á stofnuninni að gæta þess að engin leið sé að nálgast upplýsingar um það, hvaða einstaklingar fái greiðslur frá henni, hvort sem um er að ræða atvinnuleysisbætur, fæðingarorlof, greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa osfrv. Um greiðslur til einstaklinga í minnkuðu starfshlutfalli gilda sömu lög og reglur.“

Til að taka af allan vafa hefur Vinnumálastofnun leitað álits Persónuverndar hið fyrsta og óska eftir flýtimeðferð á erindi sínu.

Hlutabótaleið stjórnvalda hefur verið mjög til umræðu síðustu daga eftir að í ljós kom að nokkur stöndug fyrirtæki nýttu sér leiðina, þar á meðal Skeljungur, Hagar og Festi. Skeljungur tilkynnti þó í gær að fyrirtækið hygðist endurgreiða Vinnumálastofnun um sjö milljónir króna sem fyrirtækið taldi sig hafa sparað með því að nýta sér hlutabótaleiðina.

Í dag tilkynntu svo Hagar og Festi að þau hefðu einnig ákveðið að hætta að nýta sér hlutabótaleiðina. Hagar ætla jafnframt að endurgreiða Vinnumálastofnun þá upphæð sem fyrirtækið sparaði sér með aðgerðunum.

Ríkistjórnin kynnti hlutabótaleiðina vegna kórónuveirufaraldurs í mars. 6.700 fyrirtæki nýttu sér úrræðið og 35-36 þúsund manns fengu greitt samkvæmt því síðustu mánaðamót.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×