Innlent

Íbúar í Ísafjarðarbæ greiða tuttugu milljónir til tveggja bæjarstjóra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðar - Ísafjörður
Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðar - Ísafjörður Foto: Egill/Egill Aðalsteinsson

Guðmundur Gunnarsson, fráfarandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, fær tæplega 12,5 milljónir króna greiddar frá bænum í tengslum við starfslok sín. Um er að ræða sex mánaða laun. Þetta kemur fram í svari starfandi bæjarstjóra við fyrirspurn bæjarfulltrúa Í-listans á bæjarstjórnarfundi í morgun. Samanlagður kostnaður við tvo bæjarstjóra yfir fimm mánaða tímabili nemur tæplega tuttugu milljónum króna.

Guðmundur komst að samkomulagi um starfsflok við bæjarstjórnina þann 27. janúar. Hann lýsti því fyrir helgi að honum fyndist hann og fjölskyldan ekki lengur velkomin á svæðinu. Hann upplifði fantabrögð í bæjarstjórninni lýsti brottför fjölskyldunnar sem flótta.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari Ísafjarðarbæjar, var fengin til að gegna starfi bæjarstjóra á meðan leit stæði. Fór svo að Birgir Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri Reykjalundar, var ráðinn bæjarstjóri. Í millitíðinni réð Þórdís Sif sig sem sveitarstjóra í Borgarbyggð þangað sem hún á ættir að rekja.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans, spurði á bæjarstjórnarfundinum í morgun hve háan kostnað bæjarstjóraskiptin hefðu í för með sér á bæjarsjóð. Sömuleiðis óskaði hún eftir upplýsingum um húsnæðismál bæjarstjóra og á hvaða kjörum hann muni fá að leigja efstu hæðina á Sindragötu 4a. Einnig hvers vegna hætt hafi verið við að selja þá íbúð.

Þórdís Sif upplýsti í skriflegu svari við fyrirspurninni að Birgir Gunnarsson fengi 1,8 milljón króna í heildarlaun, 1,6 milljónir króna að frátöldu orlofi.

Engar ákvarðanir hafi verið teknar um leigu íbúðar og leigufjárhæðar á efstu hæð Sindragötu 4 til nýráðins bæjarstjóra. Ekki hafi borist kauptilboð í eignina en hún hafi verið tekin  tímabundið úr sölu.

Kostnaður íbúa Ísafjarðarbæjar við bæjarstjórana tvo þessa fimm mánuði nema því tæplega tuttugu milljónum króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×